13.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Mér sýnist þessi deila út af 5. gr. tiltölulega lítils virði, því að það er vitað, að þó að það sé orðað svona almennt, þá er engin hætta á, að farið verði að nota það víðtækara en nauðsyn krefur til að fá nægilega lóð undir húsið. Það er reynsla, þegar eignarnámi er beitt, að þá hafa matsmenn farið óhæfilega hátt með matið og langt fram yfir það, sem hefur verið hægt að kaupa eignirnar, og hefur hæstiréttur gengið þar talsvert á undan. Það gerir því enginn að gamni sínu að beita eignarnámsheimild fram yfir það, sem nauðsyn ber til.

Þá er annað atriði, sem hefur ekki verið dregið inn í umr. nema að litlu leyti, að mér finnst ákaflega hæpið að setja l. sérstaklega um það, að byggja skuli gistihús í Reykjavík. Það er alveg ómótmælanlega mikil þörf fyrir gistihús, og það gæti orðið allmikill atvinnuvegur fyrir landsmenn, ef Ísland gæti orðið ferðamannaland. Hér er margt, sem útlendingar munu telja markvert að sjá, og má búast við, að mikill ferðamannastraumur verði nú til landa, sem hafa eitthvað upp á að bjóða, og er þá nauðsynlegt fyrir okkur að geta tekið á móti því aðstreymi. En þá er ekki nóg fyrir okkur að hafa gistihús í Reykjavík, þó að það sé óhjákvæmileg nauðsyn. Það er alveg eins nauðsynlegt að koma upp gistihúsum á öðrum stöðum, sem sérstaklega eru til þess fallnir, að menn vilji leita þangað til að skoða sig um. Ég er sannfærður um, að það væri ákaflega æskilegt, að gistihús væri reist á Þingvöllum og fleiri stöðum, jafnvel uppi á öræfum. Ef ríkið fer af stað með gistihúsasmíði, þá væri nauðsynlegt, að það ætti sér stað á fleiri stöðum, eins og t. d. á Akureyri, þar sem gistihúsaekla er. Það er greinilegur ferðamannastraumur um Akureyri, og í seinni tíð hafa komið þar þúsundir Íslendinga, bæði karla og kvenna, á ferð sinni um landið. Ég tel þess vegna, að þetta frv. sé allt of þröngt. Ég hefði talið langréttast, að það hefði verið gefin heimild fyrir stj. til þess að stuðla að gistihúsabyggingum almennt í landinu og láta hana hafa ákveðna lántökuheimild til þess að koma upp gistihúsum þar, sem nauðsynlegast er. En þegar um það er að ræða, hvar gistihús eigi að standa, þá býst ég við, að þar þurfi að kveðja fagmenn til, ekki eingöngu arkitekta, heldur líka kunnáttumenn í gistihúsarekstri, og ráðfæra sig við fræðimenn á því sviði erlendis. Ég álít því rétt að hafa þetta almenn heimildarlög.

Ég er líka þeirrar skoðunar, að engin ástæða sé til, að ríkið sé að hlaupa í kapp við einstaklinga, sem vilja koma upp gistihúsum, heldur þvert á móti stuðla að því, að þeir komi þeim upp, en ríkið ráðist í byggingar á þeim stöðum, þar sem það verður annars ekki gert. Ég hef ekki hugsað mér að flytja brtt. um þetta, en ég fyrir mitt leyti kann ekki við, að l. séu eingöngu um gistihús í Reykjavík, því að það eitt að byggja gistihús í Reykjavík leysir ekki þann vanda, að landið sé við því búið að taka við ferðamannastraum, því að þeir vilja fara víðar en til Reykjavíkur. Við getum ekki vænzt, að ferðamannaheimsóknir til Íslands verði nokkur þáttur í atvinnulífi okkar, meðan við byggjum ekki gistihús nema í Reykjavík. Ég held því, að það væri hyggilegt að gera breyt. á frv. á þann hátt, að þetta yrðu almenn heimildarl., og í því efni tel ég, að rétt væri að kjósa eða skipa sérstaklega n. sérfræðinga í þessu máli til að úrskurða um staðsetningu gistihúsa og hversu stór þau skuli vera o. s. frv., vegna þess að það er ekki á færi annarra en sérfræðinga, og eins hvar byggja skuli í landinu.

Ég vildi ekki láta þetta mál ganga svo fram, að þetta kæmi ekki fram. Hæstv. samgmrh. var gefin heimild til að leggja fram í þinginu frv. um þetta efni, en hann bar það ekki undir alla stj., a. m. k. ekki mig, því að þá hefði ég gert við þetta aths.