13.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér komu aths. hæstv. atvmrh. dálítið undarlega fyrir, og hann hefði sjálfsagt getað sparað sér sumar þessar aths., ef hann hefði verið við umr., því að það hefur verið sýnt rækilega fram á muninn á þessu frv. og því, að ef til vill þyrfti að gera ráð fyrir, að ráðast þyrfti í gistihúsabyggingar almennt, en það mál er óskylt þessu og ekki ástæða til að blanda því saman. Það mundi hann sjá sjálfur, ef hann hefði fylgzt með í umr. Ég vil enn fremur taka fram, að málið var lagt fyrir stj. og þar samþ. að bera fram frv. um gistihúsbyggingu. Þar var hann viðstaddur og gerði ekki aths.

Að öðru leyti skal ég ekki fara langt út í það, sem fram hefur komið. Það gefur mér ekki tilefni til þess. Ég vil aðeins segja það út af ræðu hv. 2. þm. N.-M., að hún var ákaflega merkilegt dæmi um það, hvað langt er seilzt um hurð til lokunnar, þegar hann telur, að það sé ekki nóg að setja inn í þetta frv. heimild um eignarnám, heldur einnig heimild um að byggja hús í staðinn fyrir önnur, sem þar eru nú, af því að í eldri l. sé bannað að rífa hús, nema önnur hús séu byggð til sömu nota í þeirra stað. Það sjá allir, hvílík reginfjarstæða þetta er, að ný l. eigi að víkja fyrir gömlum, því að vitanlega er það svo, að ef ný l. eru sett, þá verða þau gömlu að víkja.

Þá spurði hv. þm. um kostnað við byggingu útvarpshallarinnar samtímis því, sem hann skýrði frá, hver kostnaðurinn hefði verið. Ég tel óþarft að vera að gefa honum skýringu, fyrst hann veit það svo vel sjálfur, en í öðru lagi vil ég lýsa yfir, að mér er alls ókunnugt um, hvað það hefur kostað, og hef enga „interessu“ fyrir að vita það.

Hv. 8. þm. Reykv. bar mjög fyrir brjósti sjúkrahúsið og barnaheimilið, sem þyrfti að rýma til að koma gistihúsinu fyrir. Nú er mér tjáð, að sjúkrahúsið verði þarna ekki miklu lengur, því að búið sé að segja húsnæðinu upp. Þá er það barnaheimilið eitt, sem þarf að sjá fyrir, og er það auðvitað sjálfsagt, og hygg ég, að það sé skynsamlegt að flytja barnaheimilið, því að ég efast um, að þetta sé heppilegur staður fyrir það.

Þótt samkomulag hafi ekki náðst við meiri hl. allshn., vil ég samt mælast til þess, að brtt. n. verði samþ., til þess að málinu sé ekki stofnað í tvísýnu. Ég tel málinu betur borgið með viðaukanum við 5. gr., á þskj. 544. Ég vil eindregið hvetja alla þá, sem vilja framgang þessa máls, að samþykkja brtt.