29.11.1945
Neðri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2154 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Pétur Ottesen:

Það var 12. október, að frv., sem ég flutti um fiskimálanefnd og útflutning, var vísað til hv. sjútvn. Og 17. okt. var einnig öðru frv., sem ég flutti um bann gegn botnvörpu veiðum í Faxaflóa, vísað til þessarar sömu n: Nú er, eins og hv. þdm. sjá, liðinn æði langur tími síðan hv. sjútvn. var falin meðferð þessara mála, og þykir mér nú ekki lengur við það hlítandi að bera mig ekki upp við hæstv. forseta í því efni, að hann beiti áhrifum sínum gagnvart sjútvn., þannig að hún skili þessum málum frá sér. Ef svo fer, að þessu þingi verði lokið fyrir jól, þá er orðinn mjög naumur tími til stefnu til afgreiðslu mála, og þess vegna full þörf á, að tekin sé úr sú stífla, sem orðið hefur í vegi þessara frv. í sjútvn. — Vil ég þess vegna mælast til þess við hæstv. forseta, að hann beiti áhrifum sínum í þá átt, að n. skili nú fljótlega þessum málum frá sér.