18.03.1946
Neðri deild: 89. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Mér finnst kenna í þessu máli einhvers misskilnings, sem ég get ekki gert mér grein fyrir, að öllu leyti, en þó að nokkru. Mér virðast blandast saman tvö alveg óskyld mál. Annað er lausn gistihúsmálsins í Reykjavík, en hitt lausn gistihúsmálanna almennt. Hér er borið fram af hálfu ríkisstj, frv. um gistihús í Reykjavík. Það mál er vandlega undirbúið, rætt við Reykjavíkurbæ og við Eimskipafélag Íslands, og hafa báðir þessir aðilar lýst sig fúsa til samstarfs um lausn málsins. Nú bera þessir hv. þm. hér fram till., bæði hv. 2. þm. S.-M., sem hefur verið á móti málinu frá upphafi, því að hann lagði til, að gistihúsbyggingarmálið fyrir Reykjavík yrði fellt, — og mér skilst hv. 2. þm. Reykv. sé með brtt. til að blanda þessu vel undirbúna gistihúsmáli í Reykjavík við algerlega óundirbúið mál annað, sem er lausn gistihúsamála almennt úti um landið. Ég vildi fyrir mitt leyti mælast til þess, að þessum málum yrði haldið nokkuð aðgreindum, og sé ekkert til fyrirstöðu, að hægt sé að gera það. Ég viðurkenni náttúrlega fúslega, eins og allir, að það er ekki leyst sú almenna þörf fyrir gistihúsbyggingar úti um landið, þó að þetta sé samþ. Það er leyst í höfuðstaðnum með því frv., sem liggur fyrir. Og ég sé ekki annað en það að blanda óskyldu máli inn í geti aðeins orðið til skaða fyrir framgang málsins að því er snertir Reykjavík. Hv. 2. þm. Reykv. segir, að þessar till. muni bæta lögin. Ég sé ekki annað en þær mundu stórspilla þeim að því leyti að drepa málinu öllu á dreif. Hann sagði, að stórum þægilegra væri að fá stór mál afgr. rétt fyrir kosningar. Það kann nú að vera. En þá er líka spurning, hvort málinu sé ekki spillt með því að afgr. það flausturslega í kosningafáti. Ég fyrir mitt leyti vil aðeins taka fram, að ég vil halda við frv. eins og það liggur fyrir og óska eftir, að því verði breytt sem minnst fram yfir það, sem samkomulag hefur orðið við allshn. Enda þótt það samkomulag að sumu leyti orki tvímælis, vil ég það til vinna til þess að málið nái fram að ganga. Ég skoða ekki brtt., sem samkomulag hefur orðið um við allshn., sem ákvarðandi um staðinn, heldur eingöngu þannig, að þennan stað eigum við kost á að taka eignarnámi, en ekki aðra. En ef samkomulag verður um að byggja annars staðar, skoða ég, að ríkisstj. hafi alveg jafnóbundnar hendur.

Brtt., sem lagðar hafa verið fram skriflegar af hv. 2. þm. S.-M., eyðileggja frv. alveg gersamlega, því að þar er því slegið föstu, að sama upphæð og áður var ætluð til gistihúsbyggingar í Reykjavík einni skuli nú renna til margra gistihúsa á landinu. Ég tel bezt farið að afgr. frv. eins og allshn. hefur gengið frá því.