29.11.1945
Neðri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2154 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Út af fyrirspurn hv. þm. Borgf. get ég skýrt frá því, að frv. hans um störf fiskimálanefndar og annað frv. um sama efni frá hv. 2. þm. S.-M. hafa verið til meðferðar jafnhliða í sjútvn., því að þau eru um svipað efni. Og þau frv. voru send nú um mánaðamótin bæði til ýmissa aðila til umsagnar og þar með til Fiskifélagsins og Sambands ísl. frystihúsaeigenda og fiskimálanefndar og Sambands ísl. fiskframleiðenda. Það hefur nú ekki komið umsögn um frv., nema frá Fiskifélaginu, og eftir það hefur n. á tveimur fundum haft til meðferðar frv. hv. 2. þm. S.-M. En það er vitanlegt, að ef þingið gerir eitthvað í því máli, sem þessi frv. bæði eru um, þá verða þau að vera til meðferðar sameiginlega, því að þau fjalla um sama efni. Sjútvn. er búin að ganga frá því, að hún getur ekki fallizt á frv. hv. 2. þm. S.-M. óbreytt, en ákvörðun hefur ekki verið tekin um frv. hv. þm. Borgf. um þetta efni.

Annað, sem hv. þm. Borgf. spurði um, var viðvíkjandi frv, um bann gegn botnvörpuveiði í Faxaflóa. Þetta frv. sendum við í sjútvn. fyrir h. u. b. mánuði síðan til ýmissa aðila, og þar á meðal til fiskideildar háskólans, því að þetta er náttúrlega mál, sem þarf að fá úrslit, sem styðst við vísindi og reynsluþekkingu. Og við sendum þetta þess vegna til tveggja aðila, annars vegar til fiskideildarinnar, eins og ég gat um, og ætluðumst til þess að fá umsögn Árna Friðrikssonar fiskifræðings um það. Og við sendum frv. líka til Landssambands útvegsmanna. Um þetta frv. hafa, því miður, ekki fengizt neinar umsagnir. En hitt er satt, að eftir umsögnum er ekki hægt að bíða endalaust, og n. verður að taka ákvörðun um þetta mál, án þess að fá þessar umsagnir, ef þær koma ekki, umsagnir, sem þó var æskilegt og alveg nauðsynlegt að fá.