13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er stórmál, sem lagt var fram í Nd. og tók þar dálitlum breyt. en sérstaklega þó á 5. gr. þess. Eins og það var borið fram upphaflega, þá var um það að ræða, að ríkisstj. fengi eignarnámsheimild á nauðsynlegum lóðum, húsum og mannvirkjum, sem hún þyrfti undir gistihúsið. En Nd. breytti þessu þannig, að eignarnámsheimildin var aðeins um ákveðinn stað hér í bænum. Nú hefur því verið yfirlýst og er alveg auðvitað, að það er ákaflega erfitt að binda þessa eignarnámsheimild við ákveðinn blett í bænum, meðal annars er óráðið, hvar þetta gistihús verður reist. Því að þó að menn hafi hugboð um það, að hentugur staður væri þar, sem um er rætt í frv., þá er það, eftir því sem maður sér í blöðum, óráðið enn, hvort húsið verður reist þarna eða ekki. Fjhn. Ed., eða þeir 3 nm., sem þátt tóku í afgreiðslu málsins, taldi löglegt og sjálfsagt að gera þessa eignarnámsheimild almenna, og ber því fram brtt. við frv., sem hún annars mælir með, að verði samþ., um það að taka upp aftur almenna eignarnámsheimild, en setur aftur varnagla við því, að eignarnámsheimildin verði notuð nema allir aðilar séu sammála um það, m. a. að öll ríkisstj. verði sammála og því næst aðrir aðilar, sem að byggingunni standa. Virðist ekki vera ákaflega mikið traust hjá Alþ. á ríkisstj., ef Alþ. þorir ekki að fá ríkisstj. í hendur þessa eignarnámsheimild með þeim varnagla, að allir ráðh. verði sammála um hana. Mér er ekki kunnugt um það, hvað olli því, að hv. Nd. sá sér ekki fært að hafa heimildina almenna. En við þrír nm. erum sammála um það að leggja til, að þessi almenna heimild verði sett inn aftur, þó með þessum varnagla. Ég hef heyrt því hreyft, að möguleikar væru á að fella með öllu niður eignarnámsheimildina úr þessu frv., og yrði þá ríkisstj., ef í það færi, að bjarga sér með bráðabirgðal., ef þetta kæmi til áður en Alþ. gæti aftur fengið að fjalla um málið. En ég get ekki séð, að nokkuð sé athugavert við þessa almennu eignarnámsheimild, þegar svo sterklega er um hana búið, — sterklega girt fyrir, að farið verði eftir einhverri sérmeiningu eins manns um það, hvort eigi að nota hana eða ekki. Ég get því ekki séð, að það sé nokkur hætta fyrir Alþ. að veita þessa eignarnámsheimild. Meiri hl. fjhn. leggur því til, að frv. verði samþ. með breyt. á þskj. 789.