13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef ekki átt þess kost að taka hér þátt í umræðum. E. t. v. er það óþarfi. En ræða hv. þm. Str. gaf mér tilefni til að segja nokkur orð. Ástæða er til þess að skýra frá, hvers vegna málið er komið fram í þessu formi, einmitt vegna ræðu hv. þm. Str. Engin viðleitni er til samkeppni milli einstaklinga. Á síðasta þ. var samþ. að vísa málinu til stj. til undirbúnings. Þá var leitað til Eimskipafélagsins og Reykjavíkurbæjar um það, hvort þeir aðilar vildu gerast þátttakendur í þessu fyrirtæki. Einnig voru hóteleigendur og fleiri spurðir, hvort þeir vildu taka einhvern þátt í því. — Þegar í stað kom í ljós, að hér yrði um risavaxið fyrirtæki að ræða, sem mundi kosta yfir tvo tugi milljóna, og var því hætt við, að einstaklingum yrði ofviða að leggja í það. Ýmsir þeirra tóku undir eins fram, að fram yrði að koma til byggingarinnar óendurkræft og vaxtalaust fjárframlag. Sýnt var, að þessarar opinberu aðstoðar mundi þörf, ef málið ætti að komast á einhvern rekspöl. — Ég hygg, að enn standi það opið einstaklingum að taka þátt í fyrirtækinu, þeim er leikur hugur á. Þær opinberu framkvæmdir, sem orðnar eru í þessu máli, stafa af því, að einstaklingar treystust eigi til að ráðast í þetta stórvirki.

Annað atriðið er líka stórt. Mér hefur verið sagt af sérfróðum manni, að því betri og fullkomnari sem hótelin eru, þeim mun minni eru líkurnar til þess, að þau beri sig fjárhagslega. Dýr hótel er ekki hægt að reka nema með tapi. Hins vegar vill það því miður oft verða svo, að þau, er arð gefa, verða fremur ófullkomin. Eina leiðin til að leiðast frá þeirri freistni er, að einhver sá aðili komi til, sem líti ekki eingöngu á fjárhagshliðina, hagnaðarvonina. Hér yrði hótelreksturinn áhugamál bæjarstj. Reykjavíkur, Eimskipafél. og ríkisstj. sjálfrar.

Þetta var höfuðástæðan til þess, að ríkið gerðist aðili til að tryggja, að lagt yrði út á heppilega braut í hótelrekstrinum. — Hv. þm. Str. hélt því fram, að þetta yrði lúxus-hótel, einvörðungu fyrir útlendinga. En ég get upplýst þennan hv. þm. um það, sbr. fyrri ummæli, að engin vandræði verða með að koma því svo fyrir, að hótelið geti bæði verið fyrir efnað og efnalítið íslenzkt fólk. — Hv. þm. sagði og, að hér væri verið að stofna til þjóðnýtingar í ríkum mæli, og hygg ég, að hann hafi þá haft frv. fyrir sér eins og það var í upphaflegri mynd sinni. Mun hann þar eiga við 5. gr. þess, en henni var breytt í Nd., og þarf hv. þm. Str. því ekki að óttast þjóðnýtinguna meir.

Ég álít, að hótelið eigi að vera okkur stórkostlegt menningarmál. Aðgerðir hins opinbera eiga að tryggja það, að málið verði ekki leitt út á hálar brautir fjárhagslega.

Það er víst, að til landsins verður talsverður straumur erlendra manna, sem þarf að hýsa. Þetta hótel á að, vera eitt af því, sem gerir ferðamannastraum til landsins mögulegan. En þá á ekki að hýsa á stöðum, þar sem við vildum ekki vera sjálf. Hvort sem við viljum eða ekki, verður ferðamannastraumurinn að öllum líkindum mikill, og er þá nauðsynlegt að hafa sæmilegt húsnæði fyrir fólkið. Og hér er þess líka að gæta, að skapazt getur heilbrigt atvinnulíf með þessu.

Ég er vonsvikinn yfir því, að frv. um ferðaskrifstofu ríkisins virðist hafa strandað. Það hefur verið í n., og vildi ég, að það kæmist í framkvæmd. Vænti ég þess, að hæstv. forseti ýti því áleiðis. Það er skylt þessu máli. Vil ég þó engan veginn blanda þessum tveim frumvörpum saman.

Hv. þm. Str. sagði, að hótelreksturinn gæti orðið arðvænlegasti atvinnurekstur. Það getur verið. En hins vegar eru líkur til einnig, að hann verði óarðvænn. Ef vel á að vera, þá er erfitt að gera hann arðvænlegan hér. Um reksturinn höfum við fengið margar góðar upplýsingar frá arkitektinum um leiðir, sem hann bendir á. Ég veit, að lögð verður á það áherzla, að fyrirtækið geti sjálft staðið undir sér, og allt kapp verður einnig á það lagt að fullnægja kröfum til góðs útbúnaðar og sjálfsagðra nýtízku þæginda. Og það er í það minnsta ekki til fyrirstöðu. Hins vegar hefur verið reynt að gera það svo fjárhagslega tryggt úr garði sem unnt er. — Annað hef ég ekki heyrt um málið í umr. eða fengið upplýst, sem mér finnst að þurfi að ræða um að svo stöddu.

Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að hv. d. gæti afgr. þetta mál nú, svo að hægt væri að halda áfram þeirri undirbúningsvinnu, sem þegar er — að litlu leyti þó — komin í gang um málið, því að ekki er hægt að gera neitt endanlegt í málinu fyrr en Alþ. hefur samþ. þetta frv. sem l. Og ef frv. verður fellt, verður sá undirbúningur stöðvaður.