13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal verða mjög stuttorður. — Hv. 1. þm. Reykv. var hér að segja frá Hótel KEA. En ég vil segja, að það sé jafnt slúðursaga fyrir því, þó að hann trúi henni. Og það er jafnt slúðursaga fyrir því, þó að einhver aðstoðarmaður á hótelinu kunni einhvern tíma að hafa sýnt einhverjum gesti á hótelinu ókurteisi. Hitt fullyrði ég, að stjórn hótelsins, sem ég er í sjálfur, og þeir forstöðumenn, sem við höfum haft fyrir hótelinu hingað til, að það er ekki með þeirra leyfi eða samþykki, að gerður sé munur á mönnum eftir því, hvernig þeir eru klæddir þegar þeir koma þangað. (MJ: Þetta var bara til þess að fullnægja reglunni.) Ég hef sjálfur borðað inni á veitingasal Hótel KEA, og þar hafa borðað bílstjórar í vinnufötum, sveitabílstjórar, sem eru. margir í verkamannafötum. Svo ætla ég þá, eins og hv. 1. þm. Reykv., að bera af mér sakir út af þessum fundi í gær í fjhn. Hv. þm. hefði í raun og veru ekki þurft að minnast á. hann, ég talaði ekkert um það í neinu ásökunarskyni. Okkur kom saman um þessa aðferð, hv. formanni n. og mér. Það kann að vera, að mig misminni það, að nál. hafi verið undirskrifað, en það bara skiptir engu máli, vegna þess að það var tekið fram seinast í nál., hvaða nm. gátu ekki tekið þátt í atkvgr. málsins, áður en fundur var haldinn. Hv. 1. þm. Reykv. var búinn að setja: „einn nm. (ÞÞ) tók ekki þátt í atkvgr. um málið.“ Og svo eftir samkomulagi við mig: „Tveir nm. (ÞÞ og BSt) tóku ekki þátt í atkvgr. um málið.“ — Og þetta var áður en fundur var haldinn. Ég er ekki með ádeilur út af þessu. Þetta var samkomulag, þar sem nál. bar með sér, að 3 nm. stóðu að því. Hvort sem það var undirskrifað eða ekki, þá var í það minnsta búið að ákveða að undirskrifa það.

Ég er hv. þm. ekki alveg sammála um það, að fram úr þessu þingmannabústaðarmáli yrði bezt séð með því að hafa herbergi á hóteli. Ég álít það að ýmsu leyti óheppilegt fyrir þeirra starf að búa á hóteli. Jafnvel þótt þau herbergi væru að ýmsu leyti sérstaklega útbúin til þessa, álít ég, að miklu betra væri að hafa sérstakt hús til þeirra nota. Og það er fjarstæða að halda fram, að ekki sé hægt að reka slíkan bústað öðruvísi en í sambandi við hótel. Það er engin sjálfsögð nauðsyn, að þingmenn hafi fæði á þessum stað. Ég er búinn að vera þm. á 3. tug ára og venjulega borðað annars staðar en ég hef búið, og er það ekki það versta fyrir þingmanninn. En þótt ég telji langt frá því, að þetta sé bezta lausnin á málinu, þá álít ég samt, ef þetta hótel er byggt á annað borð, að það sé skárra en gera ekki neitt að ætla þingmönnum þarna pláss. Það þykir kannske óviðkunnanlegt af alþm. að leggja svo mjög upp úr þingmannabústaðarmálinu, eins og ég hef gert. En ég býst við því, að allir sjái, að ég er kominn á þann aldur, að þetta mundi hafa minnsta þýðingu fyrir mig persónulega. En ég hef næga þekkingu á aðbúnaði utanbæjarþingm., og þess vegna hef ég verið að berjast fyrir þessu máli. Ég hef nóga reynslu fyrir því, hvaða aðbúnað alþm. utan af landi allflestir hafa getað fengið í Reykjavík, bæði meðan þeir þurftu að útvega sér bústað sjálfir og líka eftir að ríkisstj. tók það í sínar hendur.