13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég kalla það ádeilu af hálfu nm., þegar hann segist ekki koma á fund af því að búið sé að ráða málinu til lykta. Hann sagði fyrst, að frsm., sem líka var form. n., hefði verið með fullbúið og undirskrifað nál., þegar fundur var boðaður. Eins og hv. þm. sagði nú, var þetta samkomulag utan fundar. Og maður hefur nú séð það svartara. En hv. þm. Dal. og 1. þm. Eyf. sögðu báðir, að þeir tækju þátt í slíkri afgreiðslu málsins. Svo þegar hv. þm. er sagt, að nú verði fundur, þá segir hann, að þetta sé allt skeð. En ég get fellt þetta niður, úr því hv. þm. sagði þetta ekki í ádeiluskyni.

Það, sem ég sagði um KEA, var engin ádeila á það. Mér finnst þetta fyrirkomulag eðlilegt á hótelum og verulega fínum kaffihúsum. Það er mjög eðlilegt, að þau geri mun á, hvernig menn eru klæddir. Það er ekki nema rétt að setja slíkar reglur, ef menn sjá ekki sóma sinn í að koma ekki í vinnufötum, sem að vísu eru ágæt til sinna nota, en eiga ekki við, þar sem húsgögn eru með viðkvæmu áklæði og aðrir menn yfirleitt prúðbúnir. Og mér var sagt, að hótel KEA hefði slíkar reglur. En nú upplýsir einn stjórnarmaður hótelsins, að svo sé ekki. Álít ég það síður en svo því til hróss. Ég sagði þessa gamansögu alls ekki til að niðra hótelinu. Þetta er algeng regla, og er ekkert verið að fara í manngreiningarálit. Það er ekkert meira en menn geta haft hótel fyrir karlmenn eða eingöngu fyrir kvenmenn, þingmenn eða templara. Það er ekki manngreiningarálit.