13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Fyrst vil ég minna á það, að 2. gr. frv. heimilar ríkisstj. að reisa gistihúsið í félagi við bæjarstjórn Reykjavíkur, stofnanir, félög og einstaklinga. Þess vegna er fallin sú röksemd hv. 1. þm. Reykv., að þarna sé ekki um að ræða nema 3 aðila. Hér er um ótakmarkaða aðila að ræða. — Viðvíkjandi athugasemd hæstv. samgmrh. þá vil ég segja það, að það er ekki rétt, að undanþágu þurfi til að stofna þetta félag. Það er hægt að gera það með sáralitlu kapítali. Ríkissjóður getur svo strax daginn eftir aukið hlutaféð án þess að vera stofnandi. Þetta er mjög mikið notað nú, þegar verið er að láta hlutafélög eignast stóra hluti í öðrum hlutafélögum. (Samgmrh.: Það er ekki viðeigandi að fara þá leið.) Það er vitanlegt, að fyrir liggur fordæmi um það, að einstaklingar, sem tóku þátt í hlutafélagi fyrir 20 árum, höfðu engan rétt í félaginu, fengu engan arð, ekki heldur þegar félagið gat greitt hann. Að síðustu tók Alþ. til sinna ráða, er því fannst meðferðin orðin óverjandi, og skyldaði ríkissjóð til að borga þessum mönnum út sinn hlut. Ég veit ekki, af hverju menn eiga að læra, ef þeir læra ekki af þessari reynslu. Og ég get ekki greitt atkv. með þessu, sérstaklega þegar ég veit, að það er engin þörf að gera þetta. Það eru engin vandræði að stofna hlutafélag og láta það vera undir þeim l., sem nú gilda. En ef það getur þó ekki fallið undir l., þá á ekki að hafa það hlutafélag, t. d. heldur sameignarfélag, bæði þegar það er stofnað og eins þegar það verður rekið.