15.04.1946
Efri deild: 107. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég játa, að það er rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að það hafi raunhæfa þýðingu, hvort safnað sé hlutafé að verulegu marki. Ef svo er sem hæstv. samgmrh. sagði, að um litla upphæð sé að ræða, þá fæ ég ekki séð, að þessi breyt. hafi neina raunhæfa þýðingu, nema ég sé þá búinn að gleyma hlutafélagi eða hv. þm. Barð. hafi misskilið þetta algerlega. Skv. 1. má enginn fara með meira en 1/6 hluta samanlagðra atkv. En hitt er misskilningur, að takmörkunin sé bundin við bara hl. atkv. Á að vera 1/5 hluti samanlagðra atkvæða. Skal ég nefna dæmi til skýringar. Hlutafé er 10 + 3 + 3 millj. frá stórum hluthöfum og síðan ein milljón frá öðrum. Þrír stóru hluthafarnir missa atkvæðisrétt niður í 20% og greiða atkv. fyrir 2 millj. Hinir smærri fara með öll atkv. sín. En afleiðingin verður sú, að tveir stóru hluthafanna hafa meiri hluta atkv. alltaf. Ég held, að þetta sé rétt. (LJóh: Getur verið, að þeir stóru verði ekki alltaf sammála.) Já, en þeir hljóta þó ætið að hafa meiri hluta atkvæða, ef tveir þeirra standa saman.