16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Snæf. tók fram, hverjar breyt. hafa verið gerðar á þessu frv. í hv. Ed., þær breyt., að 5. gr., sem fjallar um: eignarnámsheimild handa ríkisstj. til þess að taka eignarnámi lóðir, hús og mannvirki í sambandi við byggingu þessa gistihúss, hefur verið breytt þannig, að eins og hann sagði er 5. gr. færð í sitt upprunalega form að efni til, en þó hafa verið settar í hana tvær takmarkanir, önnur í þá átt, að til þess að eignarnám geti farið fram, þurfi öll ríkisstj. að vera því samþykk og enn fremur allir þeir aðilar, sem að gistihúsbyggingunni standa, og í öðru lagi, að eignarnámsheimildin sé takmörkuð við árið 1947. Svo að þetta er engin endalaus yfirvofandi eignarnámsheimild, sem hægt sé að nota á hvern og einn, eftir því sem ríkisstj. á hverjum tíma kynni að detta í hug. — Það er alveg rétt, að um þessa gr. var hér í hv. þd. gert samkomulag, þegar málið var hér til meðferðar, á þá leið, að ákveðnar lóðir yrðu nefndar og það sett inn í l., að samninga yrði fyrst að leita um sölu á lóðunum og mannvirkjunum. Því að þá var það í hugum manna, að sú lóð yrði notuð í þessu skyni, sem síðan breyttist álit um, þannig að telja má víst, að sú lóð, sem þá var rætt um í þessu sambandi, komi ekki til greina. Og var þá tilgangslaust að sitja inn fyrirmæli um, að hún skyldi tekin eignarnámi, þar sem nokkurn veginn var séð, að hún yrði ekki notuð. Það varð því úr, að hv. allshn. flutti brtt. um að koma frv. í það horf, sem samþ. var. — Hv. þm. Snæf. boðaði hér brtt., sem hann þó ekki lýsti nánar, en á þann hátt, að þetta yrði á einhvern hátt takmarkað. Ég veit ekki, hvort hann ætlar að leggja til, að gr. verði tekin burt úr frv. Ef svo væri, þá væri engin eignarnámsheimild í frv. En það teldi ég fráleitt og ótækt og sama sem að fella frv. Því að það er sýnilegt, að það muni þurfa að grípa til einhverrar eignarnámsheimildar, til þess að geta komið þessu fyrirtæki á laggirnar í svipuðu formi og það hefur verið hugsað. Ég ætla ekki að kappræða um prinsip, eins og gert var hér við fyrri umr. málsins í d. En ég vil eindregið mælast til þess, að hv. d. stöðvi ekki málið með þeirri breyt. að fella 5. gr. burt úr frv., því að það væri sama sem að stöðva málið. Þá væri betra að fella það hreinlega. Því að ef slík breyt. væri samþ., þá sé ég ekki annað en frv. yrði að gagnslausum l., þó að það væri samþ. — Sé ég svo ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta. Málið hefur verið rætt ýtarlega, og er ekki ástæða til að endurtaka þær umr.