30.11.1945
Neðri deild: 46. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að spyrjast fyrir um það, hvað því veldur, að frv. til l. um breyt. á ræktunarsjóðslögunum, sem ég hef fyrir löngu borið fram og vísað var til n. 31, f. m. er ekki enn komið fram. Ég veit ekki hvað því líður hjá n., frekar en hv. síðasti ræðumaður veit, hvað því líður, sem hann spurði um, en hitt veit ég, að eðlilegt hefði verið að leitað hefði verið álits Búnaðarbankans um þetta, en það bólar ekki á því, að það sé gert, því að í morgun var ekki komin fyrirspurn til Búnaðarbankans um málið. — Jafnframt vildi ég spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta (BG), hvenær ég má vænta að fá svar við fyrirspurn minni til hæstv. landbrh., sem leyfð var 11. f. m. hér í hv. d. Þegar ég lagði fyrirspurn mína fram var mér kunnugt um það, að hæstv. ríkisstj., — landbrh. — var ekki farin að leggja fyrir hagstofuna að reikna út það, sem henni bar að gera í sambandi við greiðslu uppbóta, sem á að koma á afurðir landbúnaðarins fyrir tímabilið 16. sept. 1944 til 16. sept. 1945. Síðan veit ég, að ríkisstj. hefur lagt fyrir hana að reikna þetta út. Og ég veit, að það eru um 3 vikur síðan hagstofan sendi ríkisstj. sína grg., — sendi sinn dóm um það, hverjar uppbæturnar ættu að verða. Og þess vegna vænti ég þess, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að fara nú að skýra mér og öðrum frá því. Vildi ég mega vænta þess, að hæstv. forseti ýti á eftir því, að það verði gert.