16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Að því er snertir þessar tvær takmarkanir, sem hæstv. ráðh. minntist á og settar hafa verið í gr., vil ég taka það fram, að ég legg ákaflega lítið upp úr þeim. Þó að heimildin standi ekki nema til ársloka 1947, tel ég, að það skipti ekki máli, því að þar er um þann tíma að ræða, sem heimildin mundi verða notuð á. Í öðru lagi er um þessa breyt., að öll ríkisstj. og allir aðilarnir, sem að gistihúsbyggingunni standa, skuli vera sammála, það er að segja, að eins og ég tók fram við umr. hér, stafar mín afstaða ekki af því, að ég búist við, að hæstv. samgmrh. muni misnota heimild, sem hann fengi um þetta, heldur er þetta prinsip ástæða. Því að ég lít svo á og tel, að það hafi verið stefna Alþ., að þegar þarf að taka, til þess að byggja einhverjar opinberar byggingar, einhverjar lóðir og mannvirki, þá skuli fyrst leita samkomulags um sölu á þessum eignum, áður en farið er út í eignarnám, en ef þær samningatilraunir hafa ekki leitt til árangurs, geti aðilar komið til Alþ. og leitað eignarnámsheimildar um þessar vissu eignir. Það er að vísu gert í hafnarl. og vegal. að veita almennar eignarnámsheimildir. En að veita í l. slíka eignarnámsheimild, að taka megi eignir manna, lóðir, hús og mannvirki, án þess að taka í l. sérstakar eignir, tel ég brot á reglum hæstv. Alþ. í þessum efnum. Ég tel það ákaflega mikinn misskilning að álíta, að ef þessi 5. gr. er felld úr frv., þá sé það sama sem að fella frv. og sé því hreinlegra að gera það en að fella 5. gr. burt úr því. Ég er fylgjandi þessu frv., og ég tel, að hér sé um nauðsynjamál að ræða, og vil styðja að framgangi þess. Og hvers vegna mundi ekki vera hægt að reisa þetta hús eins og mörg önnur nytsöm hús á landinu, án þess að gefa svo víðtæka eignarnámsheimild sem hér er um að ræða? Ef ekki er hægt á þessu stigi málsins að benda á ákveðna eign eða eignir í þessu sambandi, tel ég, að það verði að bíða að veita eignarnámsheimild vegna þessarar gistihúsbyggingar.