16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég skil það út af fyrir sig vel, að þeir hv. þm., sem eru á móti því, að þetta frv. nái fram að ganga, reyni að finna því það til foráttu, sem unnt er, eins og hv. 2. þm. N.-M. — Hitt er erfiðara að skilja, að þeir, sem lýsa yfir, að þeir vilji framgang frv., leggi stein í götu þess, sem að mínu viti getur orðið til þess að takmarka og jafnvel gera að engu þau áhrif, sem frv. er ætlað að hafa. — Ég skal þó svara hv. 2. þm. N.-M. því, sem hann spurði um, eftir því sem mér er unnt. Hann spurði: Hvaða almenningsþörf er þarna á ferð? Þó að þessu hóteli sé fyrst og fremst ætlað að taka á móti útlendum gestum, þá er því líka ætlað það hlutverk að taka á móti innlendum gestum. Og það er brýn og almenn þörf til þess að stofna hér gistihús í Reykjavík. Og það er þessi almenningsþörf, sem gerir það að verkum að mínu viti, að réttlætanlegt er að veita eignarnámsheimild í þessu sambandi. Viðkomandi því ákvæði stjskr., sem hv. þm. vitnaði til, má kannske segja, að það sé ekki knýjandi þörf allrar þjóðarinnar, sem hér er um að ræða. En slíkt er ekki heldur, þegar lagður er þjóðvegarspotti og tekið eignarnámi land fyrir veginn. Það þarf ekki að vera um að ræða þörf nema fyrir nokkurn hluta þjóðarinnar í raun og veru. Þó er talið, að almenningsþörf liggi þar á bak við, og ég vil segja, að hún sé þannig fyrir hendi hér einnig.

Um starf ameríska arkitektsins, sem hér var, skal ég ekkert segja. Hann er farinn. Hann var fáa daga. Ég hef enga ástæðu til að ræða hans starf hér, því að frá staðarvalinu er ekki enn gengið.

Hv. þm. Snæf. bað mig að benda á eitt einasta hliðstætt dæmi í íslenzkri löggjöf, sem gæti jafnazt á við þetta, sem stefnt er að í 5. gr. frv. Maður skyldi ætla, að þar sem hér er um að ræða lagaprófessor, mundi hann vera á þeirri grænu grein, að ég, sem lítið vit hef á þessum hlutum, hefði lítið um þetta að segja. En ég gríp hér, nokkuð af handahófi, niður í skjalabunka á borðinu hjá mér og sé, að hér er frv. til l. um síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins. Í 3. gr. þess stendur, að ríkisstj. sé heimilt að taka eignarnámi lóðir, hús og önnur mannvirki, sem nauðsynleg teljist vegna þessarar byggingar. Nú vil ég spyrja hv. þm. og lagaprófessorinn, af því að ég er fáfróður í þessu efni, hver efnismunur er á þessari málsgr. í 3. gr. þessa frv., sem við erum nýbúnir að samþ., og hinu, sem liggur í 5. gr. þessa frv., sem fyrir liggur hér.