16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Eysteinn Jónsson:

Það var út af ummælum hæstv. samgmrh., að ég vildi segja nokkur orð.

Hæstv. ráðh. er það mikið kappsmál að sýna fram á, að heimild sú, er hér um ræðir, sé ekkert sérstakt atriði og eigi nýmæli. Hann kvaðst taka dæmi af handahófi. Hann byrjar á að nefna dæmi í sambandi við síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins. En Alþ. var einmitt búið að fella hlutaðeigandi till. Hv. þm. vildu ekki gefa svo víðtæka eignarnámsheimild sem þar var farið fram á. — Síðan grípur hæstv. ráðh. til annarra ráða. Hann talaði um heimild varðandi Raufarhöfn og aðra varðandi Reykjavík, þ. e. hitaveituna. En ég vil bara segja það, að ekkert er sambærilegt með þeim stöðum og þessari hótelbyggingu. — Að því er Raufarhöfn snertir, þá vissu allir, þegar heimildin var gefin, hvar verksmiðja sú, sem þar á að reisa, á að vera, enda er þar eigi um að ræða nema einn stað. Eignarnámsheimildin er því um einn tiltekinn stað á Raufarhöfn. Og ég veit, að hv. þm. hljóta að sjá, að þetta er mjög fjarstætt dæmi. Hefði Raufarhöfn verið stór staður, hefðu hv. þm. fengið byggingarstaðinn nákvæmlega ákveðinn. Verður það að athugast, að í Reykjavík er gersamlega óákveðið um staðinn, þar sem beita á eignarnámsheimildinni. — Fráleitt er og að nefna hitaveituna. Er í rauninni alveg sama að segja um hana og vegina. Það var ómögulegt að tiltaka nákvæmlega, hvaða landræma á leiðinni frá Reykjum til Rvíkur tekin skyldi undir heitavatnsleiðslurnar, eða ákveða, hvar röskun yrði á landi. Nær þetta einnig til gatna bæjarins. Um annað var alls ekki að ræða. Annaðhvort fengi Rvík enga hitaveitu eða gefa varð almenna heimild. — Að einum og sama brunni ber með ostruveiði.

Nei, það er alveg sama, hvernig hæstv. ráðh. heldur svona áfram. Þetta þ., sem öll hin fyrri, mun eflaust halda sér við þá ófrávíkjanlegu reglu, að eigi skuli almenna eignarnámsheimild veita, nema svo knýjandi nauðsyn sé fyrir hendi, að ekki sé hægt annað. — Ég vil svo ekki tefja umr. meir.