30.11.1945
Neðri deild: 46. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það er síður en svo, að ég láti mér nægja þessi svör hv. form. landbn. Ég kann ekki við, að þetta nýbyggingarráð sé sett ofar alþm. að rétti til, og frábið mér algerlega að eiga nokkurn þátt í því, sem það gerir. Ég geri kröfu til þess, eins og ég þykist eiga rétt til, að þau mál, sem ég hef rétt til að flytja hér, fái þinglega afgreiðslu án minnsta tillits til þessa nýbyggingarráðs. Því koma bókstaflega ekkert við þau málefni, sem ég flyt. En hafi það mikið að segja að flytja þetta frv., þá amast ég ekki við því, síður en svo. En ef tilveru þess á að nota til að koma nytjamálum fyrir kattarnef, þá er bezt, að það heyri til starfsemi þess, en laust við þm. Og þeir, sem sýna vilja þjónslund við þá stofnun, — þá þeir um það. En þeir hafa enga heimild til þess í n. hér á Alþ. að ætla sér að fresta afgreiðslu og meðferð þingmála í skjóli þess, að einhverjir menn í n. utan Alþ. séu að fást við einhver málefni, og svo bíða eftir, að þeir heimili það.

Ég beini því til hæstv. forseta (BG), að hann hlutist til þess, að landbn. afgreiði þetta mál. Og ef það skyldi, mót von minni, reynast svo, að meiri hl. hv. n. tæki upp þau vinnubrögð að svæfa málið, þá vænti ég þess, að minni hl. n. afgreiði sem skjótast þetta mál. Fáist það ekki fyrir ofríki meiri hl., að málið verði afgr. innan n., þá vænti ég þess, að hæstv. forseti taki málið af n. og sjái um, að það fái hér þinglega afgreiðslu.