08.10.1945
Efri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur nú lagt til, að þessu máli verði vísað til þeirrar n., sem ég á sæti í, og gefst mér þá væntanlega tækifæri til að ræða þetta síðar. Ég get þó ekki látið hjá líða að geta þess, að ég hefði óskað, að ræða hæstv. ráðh. hefði verið dálítið fyllri og skýrt betur, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér framkvæmd þessa máls, þannig að ljóst yrði, hvert hið endanlega verð verður.

Það vill svo til, að ég er nákunnugur annarri stærstu kjötverzlun landsins, KEA, og ég held, að það gæti verið fróðlegt fyrir hv. þdm. að heyra, hver áhrif gerðir hæstv. ríkisstj. hafa haft þar. Eins og tíðkazt hefur víða á landi hér, hafa Akureyringar verið vanir að kaupa töluverðan vetrarforða af kjöti að haustinu og látið það svo í frost og reyk eða saltað það. Með þessu móti hafa þeir gert hagfelldari kaup, fengið mikið af því kjöti, sem þeir nota, á heildsöluverði. Hefur þetta verið til mikilla þæginda fyrir báða aðila. Hin síðustu ár hefur þannig mikill hluti kjötmagnsins selzt þegar í sláturtíðinni. En nú hefur brugðið svo við í haust, að mjög lítil sala varð á kjöti. Þegar verðið var fyrst ákveðið í haust, þá trúði því enginn, að það yrði hið endanlega verð, og vildu menn því ekki kaupa kjöt þá nema rétt til matar í hvert sinn. Þegar svo þessi brbl. komu, voru menn litlu nær, því að þar er margt óljóst. Að vísu er heitið styrk, en ekki er fullgreinilegt, hver eigi að fá þann styrk. Mér hefði þótt eðlilegt, að hæstv. ráðh. hefði skýrt þetta nokkru nánar, úr því að búið er að semja uppkast að reglugerð.

Ein afleiðingin af þessum framkvæmdum hæstv. ríkisstj. er sú, að ekki hefur verið hægt að fá keypt fast fæði í Reykjavík, og hefur það, sem vonlegt er, skapað mörgum erfiðleika.

Það er auðvitað mál, að reglugerð hefði þurft að koma samhliða þessum l., og hefði hvort tveggja átt að vera komið fyrir 15. sept. Virðist þetta ekki hafa átt að vera ofætlun, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið sér algert einræði í þessum málum. Þótt svo kunni að fara, að kjötið verði keypt smátt og smátt, þá eru þegar orðin af þessu margháttuð óþægindi og tjón, eins og ég hef bent á í KEA. En svo eru engar líkur til, að sama magn seljist og áður hefur tíðkazt, því veldur ákvæðið í 2. gr. um 40 kg. Menn eru nú svo gerðir, að þeir kæra sig ekki um að kaupa sömu vöru miklu dýrari í einn tíma en annan. Mér virtist af ræðu hæstv. ráðh., að tilgangurinn með þessu væri sá að draga úr kostnaði fyrir ríkissjóð og að hann teldi hann ekki færan um að standa undir meiri niðurgreiðslum, m. ö. o., það á að spara með því að draga úr kjötneyzlu almennings. Þetta mundi vera sparnaður fyrir ríkissjóð, en það er vafasamt, hvort það er heppilegur þjóðarbúskapur að draga úr sölu kjötafurða innanlands, vöru, sem er eftirsótt af landsmönnum, en örðugt er að selja erlendis. Hver útkoman verður fyrir bændur, er mjög óvíst, því að það fer eftir verði innanlands. Með þessum ráðstöfunum og því, hvernig þær hafa verið framkvæmdar, hefur bændum verið bakað mikið tjón. T. d. er mér kunnugt, að svo er í Eyjafirði. En trúa mín er sú, að betra hefði verið fyrir bændur, ef ríkisstj, hefði ekkert skipt sér af þessum málum. En ráðstafanir ríkisstj. eru vægast sagt mjög einkennilegar. L. um dýrtíðarráðstafanir féllu úr gildi 15. sept., og þá þurfti að vera búið að ákveða um verðlagið. Flokksmenn hæstv. landbrh. lögðu til, að Alþ. yrði sett 1. sept., en ríkisstjórnin daufheyrðist við þeim óskum, vegna þess að hún vildi hafa einræði í þessum málum, að minnsta kosti til bráðabirgða. Virðist svona hegðun mjög einkennileg, einu ári eftir að lýðveldi er stofnað í landinu. Síðar verður tækifæri til að ræða þetta atriði nánar í sambandi við annað mál.

Það væri æskilegt, að hæstv. ráðh. vildi skýra nánar frá framkvæmd l. samkvæmt 3. og 5. gr., því að það er nauðsynlegt, að fólk fái nánar að vita um þetta.