08.10.1945
Efri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég varð fyrir vonbrigðum með ræðu hæstv. ráðh. Ég bjóst við, að hann gæfi einhverjar upplýsingar um framkvæmd kjötsölumálanna, svo sem full þörf er, en þær komu engar nýjar fram. Hæstv. ráðh. rengdi ekki, að það hefði dregið mjög úr kjötsölu, enda liggja fullar sannanir fyrir um það. Hann efast um, að það sé óvissan í þessum málum, sem sé orsökin, en ég hef heyrt það frá fjölda manna, að það sé óvissan um það, hvort menn fái yfirleitt nokkuð endurgreitt eða þá hvernig. Það er t. d. afleitt, að ekki eru nein ákvæði um einhleypt fólk, sem kaupir fæði á matsölu, því að um það víkur öðruvísi við en um fæði á heimilum. Enginn veit, hvað stj. hugsar sér í því máli. Atvinnurekendur, sem hafa fleiri en þrjá menn í þjónustu sinni, fá ekki þessa endurgreiðslu, og öll matsöluhús hafa fleiri en þrjá menn í sinni þjónustu, og þar eð óvíst er, hvort þeir, sem kaupa fæði, fá endurgreiðsluna, er öngþveitið í málum þessum auðsætt. Ég þekki a. m. k. einn mann, sem hætti við að koma hingað til bæjarins vegna þess, hve mikil óvissa er í þessum málum. Ef aðkomumaður kemur hingað, fær hann aðeins lausar máltíðir og verður að borga 30–40 kr. á dag í fæði, og er það allmikil hækkun.

Hæstv. ráðh. taldi þetta ekki einfalt mál viðureignar, og er það vafalaust rétt hjá honum. En ég efast um, að ríkisstj. hafi verið færari um að ráða fram úr því en Alþingi. Sem lýðræðisþjóð hefðum við átt að kalla Alþ. fyrr saman til að ræða þessi mál. En hvers vegna boðaði ríkisstj. Alþ. ekki fyrr saman? Óneitanlega hefði verið skemmtilegra að ráða úr málunum þar en með brbl. rétt áður en Alþ. kom saman. Það er engu líkara en að tilgangur stj. sé að minnka kjötkaupin innanlands.

En ég er bara ekki viss um, að þurft hefði að afla nokkurs fjár í þessu skyni, ef hæstv. stj. hefði viljað stjórna að sumu leyti ögn minna en hún gerði. Allir gerðu ráð fyrir því, að niðurgreiðslurnar hlytu að hætta, þegar stríðinu lyki, en það er auðvitað, að þegar ríkisvaldið grípur inn í, eins og það hefur gert í haust, þá verður það gagnvart þeim, sem það tekur ráðin af, að ábyrgjast gerðir sínar, og það getur kostað fé úr ríkissjóði.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé bull, sem ég hafi verið að tala um, að vald hafi verið tekið af bændum. Hann spurði, hvað ég ætti við og hvaða vald hefði verið tekið af bændum. Ég leyfi mér ekki að segja við jafnháttsettan mann og hæstv. landbrh., að hann fari með bull, en ég vil spyrja hann, hvort hann muni ekki eftir bráðabirgðalöggjöf, sem hann gaf út um að fela svokölluðu landbúnaðarráði, sem hann útnefndi, allt vald um afurðasölu bænda. (Fjmrh.: Hefur það vald verið hjá bændum að undanförnu?) Já, hjá þeim og að nokkru leyti fulltrúum neytenda. Það hefur verið samkomulag um það hjá fulltrúum bænda og neytenda, eins og oft er um kaupsamninga, en áður en það var, voru bændur alveg sjálfráðir um, hvað þeir seldu vöru sína. Við erum á líkum aldri, hæstv. ráðh. og ég. Man hann ekki eftir þeim tíma? Ég man vel eftir honum. Og þetta er gert á sama tíma og bændur stofna sérstakt stéttarfélag, og í stofnun þess tóku svo að segja allir bændur landsins þátt úr öllum þeim stjórnmálaflokkum, sem þeir eru í, en þeir eru að vísu aðallega í tveimur. Ég efast um, að fleiri bændur séu í Sósfl. en þeir, sem teknir voru í landbúnaðarráðið.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri fullkomið aukaatriði, hvernig menn ættu að sanna, hve mikið kjöt þeir hefðu keypt. Það kann að vera aukaatriði hvað suma menn snertir, en það er alls ekki aukaatriði um nokkuð margt fólk, þar á meðal margt af því fólki, sem á hvað örðugast uppdráttar af öllum, eins og skólafólk. Þess vegna er það mjög aðkallandi, að almenningur fái að vita um þetta. Mér er ómögulegt að skilja, að ekki sé hægt eftir allan þennan tíma að gefa það upp, svo að menn fái eitthvað að vita.