08.10.1945
Efri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég verð að segja, að ég er dálítið undrandi yfir þessum þungu áhyggjum, sem hv. 1. þm. Eyf. og hv. þm. Str. hafa út af þessum dögum í september, sem liðu frá því að sláturtíð hófst og þangað til brbl. voru sett. Ég á erfitt með að skilja, hver bíður tjón, þó að dragist eitthvað fram yfir mánaðamótin, að menn kaupi vetrarforða sinn. Fyrir framleiðendur skiptir þetta ekki nokkru máli, og ekki heldur fyrir verzlanir þær, sem selja kjötið. Það hefur aðeins þá þýðingu, að meira er fryst í september en í október, þegar menn fara að kaupa sér saltkjöt.

Hv. þm. Str. talaði um það, að meðan menn vissu ekki, hvaða leið yrði valin í þessu máli, hefðu þeir ekki hugsað um að tryggja sér sönnunargögn, til þess að þeir fengju endurgreiðslu á því kjötmagni, sem þeir hefðu keypt í septembermánuði. Hugsanlegir möguleikar eru það að láta þá fá sömu endurgreiðslur fyrir þessa daga í september í sama hlutfalli og eftir mánaðamótin: Þannig mundi fást nokkurn veginn rétt kjötmagn, þótt það gæti e. t. v. munað nokkrum kg. til eða frá. (HermJ: Ef einhverjir hafa birgt sig upp fyrir veturinn og vanrækt að afla sér sönnunargagna fyrir því?) Eftir því, sem hv. þm. talaði áðan, er ekki sennilegt, að margir hafi birgt sig upp á þessum tíma.

Út af því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði í síðari ræðu sinni, vildi ég benda honum á það, að ég get ekki komið auga á, í hverju eru falin þau vafaatriði, sem hann talaði um. L, verða eins ljós eða óljós eftir að reglugerð er sett í þessu efni. Þeir, sem kaupa fæði, — ég fæ ekki séð, að það skipti máli, hvort þeir eru giftir eða ógiftir, — eiga að fá endurgreiðslur á sama hátt og aðrir. Það veltur auðvitað í fyrsta lagi á því, hvort maðurinn hefur rétt til endurgreiðslna samkv. 3. gr., þ. e. a. s. að hann hafi ekki sauðfjárrækt að atvinnu að meira eða minna leyti, 3 menn eða fleiri í þjónustu sinni eða fái laun sín greidd í fæði. (BSt: Segir ekki í 5. gr., að leggja eigi fram sannanir fyrir því, að visst kjötmagn sé notað ? ) Það ætti að vera auðvelt að fá það upplýst á matstofunni, hvaða kjötmagn er notað í fæðinu í hlutfalli við hvern matþega, og hann ætti þá að geta fengið endurgreiðslur í hlutfalli við það. En þó að einhverjar efasemdir séu um þetta atriði, getur reglugerð ekki tekið neinn vafa af um það, því að með reglugerð verður l. ekki breytt.

Hv. þm. talaði um það, að rétta leiðin hefði verið að kalla saman þing í tíma og láta það ráða fram úr vandamálinu. Ég hugsa hv. þm. sjái það sjálfur, hve mikil vandkvæði voru á því að kalla þing saman og láta það fjalla um málið. Í fyrsta lagi voru þingmálin ekki undirbúin, svo að störf þingsins hefðu að öllu leyti lent í stappi um þetta mál. Og það var augljóst, að þótt þingið hefði verið kallað saman, hefði orðið að leysa þetta mál með samkomulagi milli þeirra flokka, sem að ríkisstj. standa. Og það er einmitt það, sem gert var. Það var ekki stj. ein, sem leysti málið, heldur flokkarnir, sem að stj. standa. Þm. stjórnarflokkanna höfðu tækifæri til að kynna sér .málin, eftir því sem hægt var að ná til þeirra. Hér er því ekki um það að ræða, að stj. hafi tekið sér einræði í þessu máli.

Þá vék hv. þm. að því, að stj. hefði með l. um búnaðarráð tekið vald af bændum landsins, og benti hann á, að það hefði verið, gert rétt í sama mund og bændur hefðu verið að stofna sitt stéttarfélag sjálfir. Þm. veit vel, að nú síðustu 11 árin hafa bændur ekki haft vald til að verðleggja vörur sínar sjálfir. Valdið hefur verið hjá stjórnskipuðum n., sumpart samkv. tilnefningu neytenda, sumpart samkv. ábendingu frá stofnunum, sem að standa framleiðendur, en þó hefur það jafnan verið þannig, að afgerandi valdið hefur legið hjá form. n., sem skipaður var af ríkisstj. Ekki hefur mér virzt, að hv. þm. hafi í þessi 11 ár tekið þetta mjög nærri sér fyrir hönd bændastéttarinnar. Ég man ekki betur en hann hafi einmitt beitt sér fyrir þeim l. En þegar stj. tilnefnir fjölmenna n., sem skipuð er eingöngu bændum eða fulltrúum bænda, og verðlagningarvaldið svo falið fámennari n., sem kosin er af þeirri stærri, þá er farið að tala um það, að bændastéttin sé svipt valdi, sem hún eigi siðferðislegan rétt til. Ég verð að segja það, að ég hef varla heyrt rangsnúnari ásakanir en þær, sem beint er að ríkisstj. í þessu máli. Að vissu leyti hefur ríkisstj. með aðgerðum sínum í þessu málið falið bændastéttinni vald, sem hún hefur ekki haft undanfarinn áratug. (BSt: Eru 25 menn bændastéttin?) Þeir eru fulltrúar bændastéttarinnar og góðir fulltrúar hennar.

Varðandi hitt atriðið, sem hv. þm. var að tala um, að stéttarsamtök hefðu verið stofnuð um líkt leyti, vil ég segja þetta. Stofnfundur samtakanna var 7. sept., eða 8 dögum áður en gert var ráð fyrir, að haustkauptíð byrjaði, 8 dögum áður en mjólkur,verðið skyldi ákveðið. Ég skil ekki, að hv. þm. geti látið sér detta það í hug í alvöru, að nokkur stjórn hefði getað beðið í óvissu um stofnun þessara samtaka, sem ekki eru stofnuð enn, ef ég hef skilið það rétt, þar sem aðeins var upp á 8 daga að hlaupa til að skipa málunum, ef það hefði ekki gengið. Og ég geri ekki ráð fyrir því, að hv. þm. ásaki stj. fyrir að hafa ekki gefið stjórnarandstöðunni fullkomið vald til þess að taka verðlagningarvaldið í sínar hendur meðan ekki var ákveðið, hvort niðurgreiðslur kæmu í staðinn, og meðan rætt var um, í hvaða formi þær skyldu þá vera. En þegar þessi hlið er úr sögunni, getur vel komið til mála, að stéttarsamtök bænda taki þessi mál í sínar hendur, og þá er ekki víst, að það verði ég, sem verði í meiri andstöðu við það mál en hv. 1. þm. Eyf., nema síður væri. Málin gætu skipazt þannig, ég er ekki að segja, að endilega þurfi að fara svo. Það liggur í augum uppi, að stjórnin varð að sjá um það, að verðlagningarvaldið væri miðað eingöngu við hagsmunasjónarmið bændastéttarinnar, en ekki við það, hvað kæmi hinum pólitísku flokkum landsins betur eða verr. (BSt: Ég held það hafi þó einmitt verið svo). Ég hef ekki heyrt hv. þm. geta um það. Mér hefur heyrzt á ræðum hans og hv. þm. Str., að kjötverðið hafi fremur verið ákveðið of hátt en of lágt. (HermJ: Ég held það sé misskilningur hjá hæstv. ráðh.).

Hv. þm. Str. lagði áherzlu á það, að ég hefði látið þá skoðun í ljós, að það yrði að hverfa frá niðurgreiðsluskipulaginu. Frá því að ég kom á þing 1942, hef ég ekki farið dult með það, að ég tel þessa aðferð óviðunandi. Hv. þm. sagði, að þegar ekki náðist samkomulag um aðra leið, hefði stj. borið skylda til að segja af sér. Og hann lagði áherzlu á það, að þetta væri aðalvandamál stj., sem hún ætti að standa og falla með, enda hefði það ráðið um stofnun núv. ríkisstjórnar. Í fyrsta lagi vil ég benda hv. þm. á það, að þótt niðurgreiðslur haldi áfram, þá verður því ekki neitað, að mikið er vikið frá þeim grundvelli, sem gilt hefur um þessi mál á undanförnum árum. Í fyrsta lagi er ekki greiddur niður nema sá skammtur, sem tekinn er inn í vísitöluna, eða rúmlega það, og má ætla, að það sé ekki meira en meðal neyzluskammtur. Í öðru lagi er um stórvægilega breyt. að ræða, þar sem fallið er frá öllum útflutningsuppbótum. Þessi breyt. ein út af fyrir sig verkar þannig, að uppbæturnar verða helmingi minni en þær ella hefðu orðið. Svo að ekki þýðir að neita því, að hér er um að ræða stórvægilegar breyt. frá því, sem áður var. — En auk þess er það misskilningur hjá hv. þm., að þetta hafi verið aðalmál ríkisstj., þótt ég játi það, að þetta er mjög vandasamt og erfitt mál. Höfuðviðfangsefnið er annað og miklu meira, þar sem ríkisstj. hefur heitið að beita sér fyrir endurskipulagningu atvinnulífsins í landinu. Það hefur stjórnin talið aðalverkefni sitt, og hvort henni tekst að leysa það eða ekki, ræður því, hvort hún treystir sér til að fara með völd. Það er gott, að hv. þm. Str. sér leið til að leysa þetta betur, því að eflaust verður horfið til þess að leita hans ráða, þegar allt annað bregzt.— Það er fullkomin hártogun á orðum mínum, þegar hv. þm. talaði um, að gjaldþrot ríkissjóðs stæði fyrir dyrum. En það mál verður rætt hér eftir nokkra daga, þegar fjárl. koma til 1. umr. Það er sem betur fer ekkert slíkt, sem vofir yfir. Hitt sagði ég, að án lántöku yrði erfitt að standa undir þeim greiðslum, sem á ríkissjóð verða lagðar á næsta ári. Hins gat ég, að haldið mundi verða áfram að vinna að því að koma málinu inn á þá braut, sem til frambúðar mætti telja og allir gætu vel við unað.