03.04.1946
Efri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) :

Það liggja fyrir allvíðtækar brtt. við þetta frv. á þskj. 658 og eru sagðar fluttar af meiri hl. fjhn., en vera má, að n. standi öll bak við till., en einn þm. var ekki á fundi, þegar málið var afgr. Þessar brtt. eru í raun og veru gamlar að því leyti, að till., sem fór í mjög líka átt, var fyrir n. fyrir 2. umr. En þá var ekki talið fært að bera það fram, sakir þess að það var nokkurt ósamkomulag um framkvæmdina. Málið hefur enn dregizt mjög lengi, sakir þess að þessa samkomulags við aðila hefur verið leitað, og eftir því sem n. er bezt kunnugt, mun vera fengið samkomulag um niðurgreiðslu kjötsins. Þó að brtt. séu nokkuð margar, eru þær allar utan um þessa einu og sömu hugmynd, en hún er sú, að í stað þess að láta þessar niðurgreiðslur fara fram fjórum sinnum á ári, þá er nú tilgangurinn með þessu frv. svona breyttu, að niðurgreiðslur fari fram einu sinni á ári, aðeins á manntalsþingi. Það þarf ekki að færa rök fyrir því, hvað þetta er einfaldari og auðveldari aðferð. Það er fyrir það fyrsta, að greiðslan er ein í staðinn fyrir fjórar. Það er ekki lítið í kringum þessar greiðslur, en hitt er ekki síður, að það er miklu auðveldara að gera fullnægjandi skrár um þá, sem eiga að njóta þessara niðurgreiðslna, sökum þess, að á þeim tíma á manntalsþingi, þegar þessar greiðslur eiga að fara fram, liggja fyrir nýjustu skattskrár og því hægt að leggja þær til grundvallar fyrir niðurgreiðslunum. Annað, sem hér er breytt, er það, að menn fá niðurgreitt, ef þeir á annað borð eru á skrám um niðurgreiðslur.

Þetta er það, sem þessi brtt. gengur út á. En það er ekki hægt að neita því, að fyrir mjög mannmörg heimili er ef til vill nokkur galli að þurfa að bíða þetta lengi eftir greiðslunum, það er vaxtaspursmálið, sem um væri að ræða. Það er svo ákveðið, að þessar greiðslur megi nota til skuldajafnaðar á móti ógreiddum þinggjöldum, og það hefur verið gert í þetta skipti, án þess að lagaheimild væri til. Hins vegar er rétt að hafa hana til, það er þá augljóst, að þessar niðurgreiðslur létta innheimtu tekjuskatts og annarra þinggjalda. Kemur það sér á hinn bóginn vel fyrir marga, sem fá miklar niðurgreiðslur, fjölmenn félítil heimili. Þetta verður þá eins konar skyldusparnaður í ár og gengur upp í þetta gjald, sem oft getur verið nokkuð erfitt að greiða. Ef þinggjöld eru meiri en niðurgreiðslurnar, þá er auðvitað greitt það, sem fram yfir er.

Ég held ég þurfi svo ekki að tala fyrir þessu frekar að svo komnu. Það liggur fyrir brtt. frá einum þm. á þskj. 471. Þar er svo fyrir mælt, að l. þessi skuli endurskoðast og niðurstöður þeirrar rannsóknar skuli leggja fyrir næsta Alþ. N. hefur ekki tekið upp þessa till., það er aðeins einn nm., sem ber hana fram, og get ég ekki skilað neinu frá n. um hana. Það er augljóst, að það ætti að vera meinlaust, þó að l. væru endurskoðuð. Ef þau þykja góð, verða þau sjálfsagt framlengd. Á hinn bóginn er slík brtt. þýðingarlítil, því að það er alltaf frjálst að endurskoða l., það er því rétt að láta atkvgr. ganga um þá till. Ég skal svo ekki fjölyrða að tilefnislausu um frv.