16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er stjfrv. Hefur það fengið nokkuð seina afgr. í Ed., og er því lýst í nál. frá fjhn. Þótt tími væri naumur, hefur hún fjallað um málið, og er meiri hl. n. sammála um að mæla með samþykkt frv., en áskilur sér þó rétt til að bera fram brtt. eða standa með brtt., er fram kunna að vera bornar.

Brbl. þau, er hér um ræðir og framkvæmd voru, hafa mjög verið umdeild, og ýmislegt hefur verið fundið þeim til foráttu. Ég segi ekki neitt um. álit minni hl. n., sem fyrir stendur hv. þm. V.-Húnv., en lesi hv. þm. það, þá munu þeir komast að raun um, að þar er flest það til tínt, er fundið hefur verið að l., síðan þau voru gefin út. Á hinn bóginn er ekki þar fyrir, að finna má að l. á ýmsa vegu vafalaust, og sumt mætti e. t. v. betur fara í þeim, enda hefur hæstv. fjmrh. gert það ljóst hér í hv. deild. Lög þessi eru samkomulagsmál. Má margt færa þeim til gildis. Þau stefna að því marki að afnema hinar gífurlegu niðurgreiðslur úr ríkissjóði, sem verið hafa undanfarið. Sjálfsagt er að mæla með samþykkt frv. til staðfestingar á brbl. Ég hef hvorki innan þings né utan orðið var við, að andstæðingum hafi tekizt að koma með annað pósitívara eða bera fram till., sem framkvæmanlegar megi telja í málinu. — Ég tel stóran kost að miða verðið við 1. sept. 1945, en ekki eins og það var eftir þann tíma, vegna vísitöluhækkunarinnar. Sparar þetta ríkissjóði hundruð þúsunda, ef ekki milljónir. Ég held, að við alþm. ættum að vera þakklátir fyrir það eitt og telja frv. til gildis, að niðurgreiðslurnar hafa verið taldar óhentugt og slæmt fyrirkomulag, og hafa útgjöld ríkisins verið svo mikil, að talið hefur verið nauðsynlegt að minnka þær greiðslur.

Annar stór kostur við frv. er sá, að nú er ekki greitt niður allt það kjöt, sem neytt er, heldur aðeins 40 kg á mann árlega. Árið 1944 var hins vegar ársneyzlan á mann að jafnaði 60 kg. Ég held, að hv. þm. ættu að samsinna því, að þetta er stórt spor í þá átt að draga úr niðurgreiðslufarganinu. Og fært er að stíga það spor. Við hugsuðum okkur, að ríkið losnaði við að borga niður 1/3 hluta. Síðan yrði hægt að halda áfram t. d. á næsta hausti, og þá yrði helmingur greiddur niður aðeins, en samt yrði vísitalan ekki hækkuð. Yrði komizt að samkomulagi við neytendur um að láta verðhækkunina ekki komast inn í vísitöluútreikninginn, og þannig væri hægt að halda vísitölunni niðri.

Þá er um deilt, að ekki séu það allir, er njóta munu niðurgreiðslnanna, og talað er um óverðuga og verðuga. Í einni gr. frv. er um það fjallað, hverjir skuli verða aðnjótandi ................ að vera að tala um það, að bændur njóti þessara réttinda og fái ekki niðurgreiðslur á því kjöti, sem þeir borða, en þetta hefur aldrei verið, síðan farið var að greiða niður kjötið, að bændur hafi notið þess að fá niðurgreiðslur. Ég er ekki að halda því fram, að þetta hafi verið rétt. Ég vildi miklu fremur halda því fram, að bændur ættu ekki að kaupa dýrara kjöt en aðrir. En þetta frv. gerir enga breyt. á því, sem áður hefur verið, og þeir, sem hafa lagt blessun sína yfir fyrirkomulagið eins og það áður var, geta nú sætt sig við það, þó að bændur búi nú við svipaðar aðstæður að því er þetta snertir. Því að bændum hefur ekki verið brigzlað um það að hafa lagt inn kjöt að haustinu til þess að kaupa það aftur á lægra verðinu, þegar það er borgað niður.

Þá eru það atvinnurekendur, sem talað hefur verið um, að verið væri að hefnast á með því að láta þá ekki njóta þessara hlunninda. Það eru atvinnurekendur, sem hafa 3 menn eða fleiri í þjónustu sinni. Með því að líta aðeins á aðra hlið málsins má segja, að það sé verið að hefnast á þeim, sem reka atvinnu. En ef málið er skoðað frá fleiri hliðum, kemur í ljós, að atvinnurekendur, sem hafa menn í þjónustu sinni, fá þetta upp borið alveg að öðru leyti með því, að vísitölunni er haldið niðri og atvinnurekandinn á þann hátt borgar þannig lægra kaup en ef vísitölunni væri leyft að fara upp.

Þá er þriðji aðilinn, sem fær kaup greitt að nokkru eða öllu leyti í fæði, sem nýtur ekki þessara hlunninda, en það er þá eins ástatt með hann, að með því að vísitölunni er haldið niðri, fær hann þetta upp borið á annan hátt.

Ég ætla nú ekki að halda langa ræðu um þetta mál, ég hef lýst því, að þetta er frá mínu sjónarmiði ekki eins æskilegt og maður vildi helzt kjósa. Það æskilegasta væri, að hægt væri að afnema allar niðurgreiðslur strax, en það eru allir sammála um, að sú leið sé ekki fær. Og þeir, sem talað hafa um það, að þetta fyrirkomulag væri slæmt, hafa ekki bent á neina leið, sem væri fær að þessu leyti. Menn eru sammála um það, að ef vísitalan væri látin fara upp, hlyti það að hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir allt atvinnulíf og lama það eða stöðva.

Ég tók það fram áðan, að nm. þeir, sem mæla með frv., áskildu sér rétt til þess að flytja brtt. við frv. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Ég hef verið að hugsa um að flytja brtt. við 5. gr. frv., og má vel vera, að ég geri það við 3. umr. Hv. 2. þm. Reykv. hefur einnig talað um að flytja brtt. við 3. umr., en ég veit ekki fyrir víst, hvort úr því verður; má vel vera, að hann geri það. En hann hefur ekki gert grein fyrir, í hverju sú breyt. er fólgin, en mér hefur skilizt, að um smáatriði væri að ræða.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 3. umr. óbreyttu, og gefst mönnum þá tækifæri til þess að hugsa um það milli umr., hvort nauðsyn beri til þess að flytja brtt. við 3. umr.