16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Það er vegna þessara ákvæða í frv., sem ég vil segja nokkur orð, sem mér finnst í raun og veru furðulegt, að sett hafi verið í lög, að gera svo upp á milli þegnanna eins og gert hefur verið í þessum efnum, að í fyrsta lagi skuli þeim vera refsað, sem framleiða kjöt eða að einhverju leyti starfa að framleiðslu kjöts, með því, að þeir skuli þurfa að kaupa kjötið hærra verði en aðrir. Ég sé ekki, að þetta sé bein örvun til þessarar framleiðendastéttar landsins. Og mér virðist mikið misrétti, sem fram kemur í því. Með þessu móti eru líka framleiðendur kjötsins, bændur, skyldaðir til þess að nota jafnan gamlan mat, þar sem þeir ekki hafa sæmilega geymslu. Því að það er vitað, að þeir voru mjög farnir til þess yfir hitatímann að kaupa kjöt úr frystihúsum, þar sem þeir höfðu ekki frystihús sjálfir og gátu ekki komið kjöti til geymslu í frystihús. En ef þeir eiga að kaupa kjötið hærra verði en aðrir, munu þeir hætta þessu fyrirkomulagi. Og ég hygg, að það örvi ekki til kjötframleiðslu, ef ekki er hægt að nota nýmetið í sveitum nema með því móti, að bændur skuli greiða hærra verð fyrir kjötið en þeir, sem ekki koma nærri framleiðslustörfum.

Þá er önnur hlið þessa máls mjög athyglisverð, sem snýr að skólafólki úr sveitum, sem vinnur nokkra mánuði við framleiðslustörf, að það skuli eiga að greiða þessa vöru hærra verði en aðrir, bara fyrir það að hafa fengið fæði sem nokkurn hluta kaupgreiðslu nokkurn tíma af árinu. Ég hélt, að nemendur úr sveitum landsins, sem verða að koma sér fyrir í kaupstöðum, hefðu nógu miklu erfiðari aðstöðu en þeir, sem í kaupstöðum eiga heima, og hefðu nógan kostnað að greiða, þó að ríkisvaldið þyrfti ekki að setja sérstök ákvæði í l. um það, að þeim skyldi mismunað þannig, að þeir yrðu að kaupa þessa vöru dýrara verði en þeir, sem í bæjunum búa. Mér er líka sagt, að ekki sé óalgengt hér, þar sem matsala er, að spurt sé um það, hvort maður hafi unnið í sveit. Því að það er ekki talið álitlegt að taka mann í fæði, sem hefur starfað í sveit, nema með því að setja honum skilyrði um að borga hærra verð fyrir fæðið en öðrum. Og ég skil ekki yfirleitt réttlætistilfinninguna hjá þeim mönnum, sem eiga að vera fulltrúar utan úr dreifbýlinu og eru kosnir sem slíkir, ef þeir vilja hlíta slíkum ákvæðum fyrir sína umbjóðendur, að það sé í raun og veru verið að hegna þeim fyrir það, að þeir hafa unnið fyrir kjötframleiðendur.

Ég tel þetta frv. meingallað í eðli sínu og l. og sennilegast, að enginn sparnaður verði að þeim. En af því að þetta eru brbl., geri ég ráð fyrir, að stjórnarliðið vilji ekki fella þau beinlínis. Hins vegar tel ég, að fulltrúar bænda og þeirra, sem unnið hafa hjá bændum, geti vel reynt að rétta hlut sinna umbjóðenda. Og þess vegna vildi ég koma með brtt., sem verður að vera skrifl., vegna þess að maður fær ekki frv. í hendur fyrr en þau eru tekin til umr. oft, eins og líka hér er í þessu máli, en brtt. er um það, að úr 2. gr. verði numin burt orðin : „með undantekningum þeim, sem í 3. gr. segir“, og um 3. gr., að hún falli niður með öllu. En í 3. gr. eru þessi ákvæði, sem valdið hafa mestum árekstrum í þessum efnum og ómögulegt er að sjá með nokkru skynsamlegu viti, hvaða röksemdir geta staðið á bak við annað en það, sem kemur fram í ýmsum frv., að reynt er að flokka fólkið eftir því, hvort það býr í kaupstöðum eða sveitum. Þau eru vissulega fleiri frv. en þetta, sem þessi stimpill er á, sem virðist vera eitt af verkum þeirrar nýsköpunarstjórnar, sem nú situr, að hafa sín frv. með þessum stimpli. Og við 4. gr. frv. er þessi brtt. um, að fyrri málsgr. hennar falli niður, sem er ákvæði um allt þetta starf og vafstur við að draga fólk í dilka og þá skriffinnsku, sem því fylgir. Þessar skrifl. brtt. vildi ég mega leggja fram fyrir hæstv. forseta.

En svo vildi ég aðeins minnast á þessi orð hæstv. landbrh., þegar hann hrósaði hér sinni ágætu nefnd, veðlagsn. landbúnaðarafurða, og sagði, að kjötverðlagsnefnd hefði aldrei verið betur skipuð en nú. Mig undrar ekkert, að honum finnist svona vera, þar sem hann hefur skipað alla mennina í n. eftir sínu höfði, og þegar hann segir, að hann geti ekki skilið annað en að n. hafi unnið sérstaklega með hag bændanna fyrir augum. Ég hef aldrei setið í nokkurri verðlagsn. landbúnaðarafurða. Hitt vi1 ég segja hæstv. landbrh. afdráttarlaust, að ef ég hefði verið settur í þá n., þá hefði ég talið mér. skylt að sjá hagsmunum þess aðila borgið, sem hefði sett mig í n., og þar hefði ég talið mig trúnaðarmann þess aðila, sem hefði tilnefnt mig til að vera í nefndinni. Og ég teldi sviksamlegt að vera útnefndur fyrir einhvern sérstakan mann í n. og hugsa ekki um hagsmuni þess, sem setti mig í nefndina. Þess vegna er það sjáanlegur hlutur, að þar sem hæstv. landbrh. hefur útnefnt þessa nm. í verðlagsn., þá eru þeir hans trúnaðarmenn, en ekki bændastéttarinnar: Þess vegna er það líka, sem hæstv. landbrh. telur þessa nm. svo góða sem verðlagsnefndarmenn, að aldrei hafi n. verið betur skipuð en nú, „enda hefði þessi n. verið skipuð bændum“ sagði hæstv. ráðh. En hefði þessi n. verið skipuð af bændum, hefðu þeir nm. ekki látið verðlag bænda vera lægra en áður, eftir að búið var að svíkja bændur um það verð, sem þeir áttu að fá. — Ef hæstv. landbrh. t. d. teldi sér sæma að taka af mér ráðin um að ráða til mín hjú, þá mundu þau líta á hann sem yfirhúsbónda og fremur húsbónda en mig. Og það er hliðstæða við þetta, sem gerzt hefur í þessu efni, skipun verðlagsnefndar. Þess vegna er það í raun og veru vantraustsyfirlýsing hjá hæstv. landbrh. á sína trúnaðarmenn, sem hann hefur tilnefnt, ef hann heldur, að hann hafi ekki getað treyst þeim til þess að framkvæma starf sitt nokkurn veginn í samræmi við það, sem hann hefur helzt kosið. Og þessir menn, sem hæstv. landbrh. hefur valið í þessa n., væru ekki meiri menn í mínum augum fyrir það, ef þeir brygðust hans trausti, þar sem vitað er hins vegar, að fjöldi manna í bændastétt hefði aldrei sýnt þessum mönnum traust. Þetta vil ég segja í sambandi við það, sem hæstv. landbrh. var að tala um, að verðlagsn. hefði aldrei verið betur skipuð en nú, þegar áður voru t. d. í kjötverðlagsnefnd forstjóri Sláturfélags Suðurlands og Jón Árnason, sölustjóri íslenzkra afurða hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem höfðu unnið af trúmennsku að sölu afurða bænda undanfarna áratugi, og að maður gleymi ekki vini okkar hv. 2. þm. N.-M., sem ég tel víst, — a. m. k. hefur mér heyrzt það á þeim, sem hafa verið á fundum með honum, — að hafi séð hagsmunum bænda vel borgið. Ég hygg, að það megi segja nokkuð mikið um þá menn, sem nú eru í kjötverðlagsnefnd, ef á að segja meira þeim til ágætis sem slíkum en þessum mönnum, sem ég taldi nú, sem áður voru trúnaðarmenn bænda í þessu efni.

Mér er áhugamál að þurrka í burt þann niðurlægingarstimpil, sem hæstv. ráðh. með hverju frv. sínu á fætur öðru, og ekki sízt með þessu, sem hér liggur fyrir, er að reyna að setja á fólk, sem erfiðasta aðstöðu hefur í landinu, sem býr í sveitum og vinnur við framleiðslustörf og er meir og meir að flýja frá þeim. Og ef fulltrúar þessa fólks hér á Alþ. hafa ekki manndóm til að taka af málunum þennan stimpil, hygg ég, að fólkið telji þá svíkja sinn málstað og sinn heiður.