17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, sem ég vildi segja í sambandi við þessar umr., sem hafa nú farið á þann veg sem vænta mátti, vegna þess að þetta hefur virzt vera mjög viðkvæmt mál, og ætla ég mér ekki að blanda mér sérstaklega inn í það, sem farið hefur hér á milli flokka í þessu máli, heldur það eitt, sem hér hefur verið rætt um eitt einstakt atriði. Þó vil ég taka það fram, að mér finnst, að þeir hv. þm., sem látið hafa falla þung orð í garð hæstv. landbrh., viti það fyrirfram, að þar hafi þeir ofmælt, af þeirri ástæðu, að hæstv. landbrh. er þekktur maður bæði meðal bænda og allrar þjóðarinnar fyrir annað en ósanngirni. Hygg ég, að hann hafi ekki verið grunaður um það af bændastéttinni að vilja níðast á bændum. Tel ég því nú hafa verið óverðuglega mælt í hans garð, og það því fremur sem hæstv. landbrh. er hér ekki viðstaddur.

Hv. þm. V.-Húnv. hefur skilað mjög ýtarlegu nál. á þskj. 841, og kemur þar inn á atriði, sem komið hefur allmikið inn í þessar umr, hjá hér um bil öllum hv. Framsflþm., sem talað hafa. Það er um smásöluverð eða um verðlagningu og dreifingu á kjötinu hér. Hv. þm. V.-Húnv. hélt því fram, og jafnvel fleiri hv. þm., sem ræddu um það, að þarna hefðu verið allt að 3 millj. kr., sem hefði verið kostnaður til milliliðanna svo kölluðu. En mig vantar það í þessar upplýsingar frá hv. þm., að ég býst við, að þessi upphæð fari að nokkuð miklu leyti aftur til bændanna sjálfra. Því að það mun ekki vera rétt að kasta þessu þannig fram að miða þetta alltaf við kaupmenn, eins og hv. 2. þm. N.-M. talaði um og kom ávallt fram í umr. hjá fleiri hv. þm. En við vitum það, að dreifingin á kjötinu er framkvæmd af kaupfélögum eða samvinnufélögum bændanna að miklum meiri hluta. Svo að ég býst við, að við getum alveg í bróðerni talað um það, að þetta sé of hátt reiknað sem ágóðáhluti til kaupmanna út af fyrir sig, eða til „nokkurra kaupmanna í Reykjavík.“ Hv. 2. þm. S.-M. taldi það náttúrlega óhæfu, að þetta rynni til milliliðanna, og taldi, að hæstv. landbrh. hefði átt að hindra það, en láta þetta renna til bændanna, og að það væru meðlimir í félagi kjötkaupmanna og kjötkaupmenn, sem hefðu átt frumkvæðið að þessari kröfu, og að t. d. sá maður, sem væri meðlimur í félagi kjötkaupmanna og um leið stjórnaði útsölunni á kjötinu fyrir samvinnufélög bænda, hefði fylgzt með vegna þess, að hann væri félagsmaður. Ég held, að það hefði verið réttara, áður en við hefðum dregið þessar umr. svo ákveðið fram á þingfundi, að leita upplýsinga hjá félagi kjötkaupmanna og þ. á m. og ekki sízt hjá þeim manni, sem að dreifingu kjöts hefur unnið trúlega fyrir hönd bænda um langt skeið. Og ég held, að það hefði verið skoðun hans, að það væri ekki hægt að gera minni kröfur en gerðar voru í þessu efni. En ég veit, að ef kröfurnar hafa verið ríflegar, þá mun ágóði milliliðanna í kjötsölunni líka að miklum hluta falla til bænda sjálfra gegnum félagsskap þeirra. Enda hefur það nú komið fram í umr., að ef það væri, þá mætti það litlu máli skipta, þó að upphæðin væri rífleg.