12.12.1945
Sameinað þing: 17. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Hermann Jónasson:

Ég hélt satt að segja, að það ætti að hafa verið nóg fyrir stj. að fá þrisvar sinnum lengri ræðutíma en stjórnarandstaðan, þó að hún þyrfti ekki að gera tilraun til þess að byrja eldhúsdag strax á eftir. Ég get vel skilið þetta, vegna þess að það fór þannig úr hendi, að þegar einn talaði í vestur, þá talaði annar í austur, þar sem ráðh. rifust sín á milli um helztu stofnunina í landinu. Þetta er kannske ekkert undarlegt, en ég hélt satt að segja, að þó að útvarpsumr. í gær hefðu farið þannig úr hendi af hálfu stj. sem raun hefur á orðið, þá þyrfti þetta ekki að koma fyrir, því að náttúrlega hafði hæstv. dómsmrh. hér til forsvars fyrir sig ekki einn, heldur marga. Ég vil aðeins segja það út af þessu frv., að náttúrlega stendur stj. varnarlaus í þessu máli, því að meðferð hennar í húsnæðismálunum er gersamlega óverjandi, að horfa á það allt árið, að byggingarefni er rifið út og samvinnufélög hafa ekki byggingarefni, vitanlega var hægt að leiðrétta þetta með því að gefa út bráðabirgðal. Það er ekki til neins að telja okkur trú um, að það taki marga daga að semja svona frv., ef stj. hefði viljað gera eitthvað í málinu. Hæstv. ráðh. segir, að það hafi verið leitað eftir upplýsingum frá byggingarsamvinnufélögum. Veit ekki þessi hæstv. ráðh., að Guðlaugur Rósinkranz er einn af þeim mönnum, sem fyrst og fremst er forsvarsmaður byggingarsamvinnufélaganna? Svo kemur hæstv. ráðh. og segir: Við höfum leitað álits og upplýsinga hjá byggingarsamvinnufélögum. — Hvað gengur að hæstv. ráðh. ? Hann segir, að frv. hafi verið til. Hvers vegna kom það ekki fram fyrr en hálfum mánuði eftir að frv. Framsfl. kom fram, ef við höfum fengið upplýsingar úr hans frv.? Þetta stangast allt saman og rekur sig hvað á annars horn, eins og ráðherrarnir í útvarpsumr. í gær.