08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

7. mál, skipakaup ríkisins

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Frv. þetta er staðfesting á l., sem út voru gefin 13. sept. s. l. Ríkisstj. hafði, eins og hv. þm. mun kunnugt, snemma í sumar ákveðið að láta byggja innanlands báta, og hafa nú verið gerðir samningar um smíði á 35 vélskipum, eftir að athugaður hafði verið áhugi manna og eftirspurn eftir þessum bátum, sem virtist vera mikil. Þar af eru 18 bátar 35 smálesta, 15 bátar 55 smálesta og 2 62 smálesta. Af þessum 15 skipum 55 smálesta eru 12 byggð samkv. samningi við Landssmiðjuna, sem er ríkisfyrirtæki, er ríkisstj. hefur í hendi sér, og getur hún ráðið, hvað hún lætur smíða marga báta. Það er ekki víst, að gerðir verði frekari samningar að sinni, vegna þess að viðhorf hefur dálítið breytzt. Bæði er það, að síldarvertíðin á síðasta sumri hefur orðið til þess að draga úr áhuga manna og skapað svartsýni í bili, og í öðru lagi voru fluttir inn til landsins nokkrir gamlir sænskir bátar fyrir miklu lægra verð en er á bátum, sem byggðir eru innanlands. Ríkisstj. vildi ekki banna innflutning á þessum bátum og vildi láta menn sjálfa reyna þetta, en grun hef ég um, að kaup þessi séu ekki eins góð og menn töldu, þegar þeir gerðu kaupin, og skilst mér, að sumir þessara báta verði orðnir nokkuð dýrir, þegar skipaskoðunin getur gefið þeim sitt samþykki. — Þá hefur loks komið á daginn, að menn hafa verið að bjóða báta frá Danmörku fyrir allmiklu lægra verð, og hef ég heyrt, að verð á 60 tonna bát væri 340 þús. kr. Veit ég ekki, hvort bátar þessir eru sambærilegir við íslenzku bátana, en eins og kunnugt er, gera Íslendingar hærri kröfur um styrkleika en ef til vill nokkur önnur þjóð og byggist þetta á því, að bátar okkar verða að sækja aflann um hávetur út á hinn erfiða sjó, sem hér er kringum land.

Vélar hafa verið keyptar í þá báta, sem fyrstir verða tilbúnir, svo að ekki þurfi að standa á þeim. Annars er fyrirkomulagið þannig við skipasmíðastöðvarnar, að þær leggja til allt efni og áhöld í bátana að undantekinni aflvélinni, en hún verður svo keypt sérstaklega, og hafa nú verið keyptar nokkrar enskar vélar í bátana, sem fyrst eru tilbúnir. Samningsverðið á smíði þessara báta er sem hér segir: 35 smálesta bátarnir kosta 265000 kr., 55 smálesta bátarnir 423500 kr. og 62 smálesta bátarnir 477440 kr., en vélin kostar 80–90 þús. kr. í hvern bát.

Leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði vísað til hv. fjhn., og mun ég gefa n. allar frekari upplýsingar og eins svör við fyrirspurnum, sem kunna að verða bornar fram.