08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

7. mál, skipakaup ríkisins

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Út af fyrirspurn, sem fram hefur komið, tek ég það fram, að það hafa ekki verið gerðir neinir bindandi samningar um sölu neinna þessara báta. Í viðræðum við þá menn, sem hér koma til greina, er ekki enn búið að slá neinu föstu, og það er nú svo, að það er ekki tiltækilegt að smíða bátana svo að hagkvæmt sé, ef smíða á eingöngu fyrir hvern einstakan mann eftir hans ósk. Reynt hefur verið að fara þá leiðina að velja góða báta, sem eru við margra hæfi, og fylgja sömu teikningunum, að sínu leyti svipað og gert var við smíði sænsku bátanna, og hefur það sýnt sig, að ekki er hægt að fara eftir þeim óskum einstaklinga, sem fram koma, heldur er reynt að semja nokkurs konar meðaltal af þeim bátum, sem reynsla er fyrir, að hafi verið nokkuð góðir, og eru þessar skipastærðir miðaðar við óskir, sem fram hafa komið. Einnig er annað, sem hefur mikið að segja í þessum efnum, og það er, að ef gerður er samningur við skipasmíðastöð um smíði t. d. 3 báta af sömu gerð, þá er hægt að komast að betri kjörum en ef gerður er samningur um smíði á einum bát, og hins vegar er ekki ástæða fyrir einstaklinga að ákveða að kaupa bát, sem ef til vill verður ekki byrjað á fyrr en eftir 1½ ár. Sennilega verða t. d. breyt. á vísitölunni, sem þá kemur fram í verðinu, og lækkar þá tilboðsupphæðin samkv. vissum reglum, og ekki ber að neita því, að viss áhætta fylgir því fyrir ríkisstj, að gerast milliliður um þessar bátasmíðar, en hins vegar býst ég við, að ekki sé framkvæmanlegt að gera samninga við kaupendur um smíði bátanna, fyrr en þeir eru fullgerðir, enda engin trygging í því fyrir ríkissjóð. — Enn sem komið er er ekki búið að gera neina fasta samninga við kaupendur að þessum bátum, en í undirbúningi er að gera fasta samninga um þá, sem fyrstir verða tilbúnir.