08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

7. mál, skipakaup ríkisins

Pétur Ottesen:

Mig langar til í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr. um skipabyggingar, að bera fram eina fyrirspurn til hæstv. atvmrh. Hún er í sambandi við það, að jafnframt því sem hæstv. ríkisstj. er nú að láta auka við skipaflotann með því að semja um byggingar á bátum, þá hafa einstaklingar einnig og jafnframt upp á eigin spýtur verið að vinna að því sama. Mér er kunnugt um það, að útgerðarmenn og sjómenn á Akranesi eru búnir að gera samninga um byggingu á bátum í Danmörku. Styrkleiki bátanna er miðaður við þær kröfur, sem gerðar eru hér til slíkra báta, og eru þeir byggðir eftir teikningum, sem gerðar hafa verið hér heima, svo að þá er enginn munur á þeim bátum og þeim, sem ríkisstj. hefur samið um byggingu á innanlands. Þessar bátabyggingar eru því nákvæmlega hliðstæðar. Hitt er svo vitað, að þau kjör, sem samið hefur verið um við skipasmíðastöðvar í Danmörku, eru miklu hagkvæmari en þau kjör, sem ríkisstj. hefur samið um hér. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að meiri líkur séu til, að hægt verði að reka þá báta, sem byggðir eru fyrir hin hagkvæmari kjör, þó að breyt. yrðu á verðlagi því, sem nú er, en þá báta, sem smíðaðir eru með meiri kostnaði. Sú fyrirspurn mín til hæstv. atvmrh. er þessi, hvort þeim lánveitingum, sem aflað hefur verið fjár til samkv. 22. gr. fjárl. fyrir árið 1945, þar sem hæstv. ríkisstj. er heimilt að verja 5 millj. kr. til þess að veita viðbótarlán til bátabygginga, til viðbótar því, sem fiskveiðasjóður veitir til þeirra bygginga, — hvort hæstv. ríkisstj. hugsi sér ekki að haga þessum viðbótarlánveitingum þannig, að þau gangi jöfnum höndum til þeirra báta, sem byggðir eru fyrir framtak einstaklinga, og þeirra báta, sem byggðir eru fyrir framtak hæstv. ríkisstj. Ég vildi óska þess, að hæstv. ráðh. vildi gefa svör við þessu, sem ég get varla búizt við öðru en falli á þá lund, að bátarnir verði jafnréttháir til að njóta þessara styrkja. Fyrirspurn mín er fram borin í þessu augnamiði, að fá það upplýst, hvort allir eigi að hafa sama rétt til þessara hagkvæmu lána, sem Alþ. hefur samþ. til að auka skipaflotann.