08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

7. mál, skipakaup ríkisins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Það eru aðeins örfá orð út af þeim fullyrðingum, sem hv. 2. þm. S.-M. var hér með um fjármálaóreiðuna hér á Íslandi, sem auðvitað væri aðeins að kenna núverandi ríkisstj., eins og allt annað illt, og gæti truflað allan almennan atvinnurekstur í landinu og kæmi m. a. fram í því, að menn þyrðu ekki að festa kaup á bátum, sem ætti að byggja hér innanlands, vegna þess að endanlegt kaupverð bátanna miðaðist að lokum við vinnulaun í landinu. Maður hefur nú heyrt þennan són allt frá því að þessi hv. þm. datt úr ríkisstj., són, sem hann hefur hugsað sér að staglast á, ef honum og hans sinnum tækist ekki að girða fyrir, að nokkur ríkisstj. yrði mynduð. Ef hann ætlar að hafa hér frammi í hv. d. sama rausið, þá má hann verða viss um það, að það verður sungið undir. Hann má taka sér það til inntekta, ef hann vill, að ég met þó meira það, sem hv. þm, segir um þetta, heldur en þann málgang, sem Tíminn lætur frá sér fara. Slíkur ritháttur á engan sér líkan, sem fyllir. dálka sína með rógburði og öðru þess háttar. En hv. þm. talaði af mikilli vanþekkingu um þessi mál og fór alveg villur vegar. Hér ríkir ekkert sérstakt ástand í þessum efnum. Íslendingar hafa gert viðskiptasamning á sama sviði og nágrannaþjóðir okkar og orðið að sætta sig við það, sem þær hafa gert hvað snertir gerð skipa, og miðað við þær kröfur, sem þær gera. Hitt er vitað, að þessi almenna regla, sem hv. 2. þm. S.-M. talar um, að ekki megi festa kaup á neinum hlut nema full vissa sé fengin fyrir, að hann borgi sig, er eðlilegt sjónarmið þeirra manna, sem ekkert vilja gera, og þessi hv. þm. er orðinn umboðsmaður fyrir það róttækasta afturhald, sem ég hef hitt fyrir síðan ég kom hér á , Alþ. Þetta er eðlilegt sjónarmið þessa fámenna flokks hér á þ., sem hefur unnið á móti aukinni hagnýtingu íslenzkra verðmæta á réttan hátt í því skyni að bæta kjör almennings í landinu að verulegu leyti, en það er rangt sjónarmið fyrir alla aðra og dautt sjónarmið fyrir þá, sem bera verulega fyrir brjósti hag almennings. En ég mun fara nánar út í þetta þegar næsta dagskrármálið verður tekið fyrir, því að þar kemur hið sama greinilega fram.

Ég hef ekki talið neina þörf að taka þátt í þessum umr., en vildi aðeins láta þessa aths. koma fram í tilefni af þeirri gagnrýni, sem fram kom hjá hv. 2. þm. S.-M. í síðustu aths. hans. Að öðru leyti læt ég ræðu hans fram hjá mér fara nú, og mun seinna gefast tækifæri til þess að sanna, að gagnrýni hans er á sandi byggð. Þótt hann fái væntanlega að segja nokkur orð í viðbót, sé ég ekki ástæðu til þess að deila meir á þennan hv. þm. en orðið er.