08.10.1945
Neðri deild: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

7. mál, skipakaup ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forsrh. taldi heldur lítið nýtt í þeirri gagnrýni, sem ég flutti um fjármálaástandið, þar sem ég undirstrikaði það, sem hv. þm. Vestm. hefur lagt mesta áherzlu á. Það getur verið, að þetta sé ekki nýr sannleikur, en jafngóður er hann fyrir því. En mörgum mun finnast heldur lítið nýtt í þeim skætingi, sem hann hélt fram í garð þeirra manna, sem ekki geta hér svarað fyrir sig, þegar hann er að tala um rógburðinn í Tímanum. Þá skildist mér hæstv. ráðh. hafa í hótunum, að ef ég vildi ræða fjárhagsmálin, þá yrði tekið á móti. Ég hef ekki og mun ekki skorast undan því að ræða við hann um fjármálin, hvort sem það væri hér á Alþ. eða annars staðar, svo að það dregur ekki úr mér, þó að hann lofi að verða liðlegur að ræða þessi mál hér.

Að lokum vil ég segja það, að í einu atriði reyndi hæstv. forsrh. að ræða málefnislega það, sem hér liggur fyrir, og vil ég undirstrika það, hvernig það var gert. Hann sagði, að 2. þm. S.-M. væri talsmaður þeirra, sem ekkert vildu láta gera í landinu, vegna þess að hann héldi fram, að það ætti að bera það undir einstaklinga og bæjarfélög, hvort eigi að kaupa atvinnutækin. Og aðaltalsmaður einstaklingsframtaksins á Íslandi heldur áfram og segir, að ef einstakir menn eigi að skera úr um það, hvort eigi að kaupa atvinnutæki til landsins, þá sé það sama og dauðadómur yfir þeim framkvæmdum, þá verði ekkert gert. Ég held, að þessi mikli talsmaður einstaklingsframtaksins á Íslandi, hæstv. forsrh., geti huggað sig við það, að það er varla nokkur maður á Íslandi, sem tekur mark á því, sem hann segir, svo að hann getur verið rólegur, þó að hann segi aðra eins vitleysu og þetta.

Þá ætla ég aðeins að segja örfá orð viðvíkjandi því, sem hv. þm. Vestm. sagði. (Forseti: Ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. á því, að þetta átti aðeins að vera stutt aths.). Ég vil benda hæstv. forseta á, að ef hann ætlar að sýna réttlæti, þá verður hann að sýna örlitla þolinmæði, og annað eins hefur komið fyrir og það, að þm. hefur talað oftar en einu sinni til þess að svara.

Hv. þm. Vestm. tókst lítið betur en hæstv. forsrh. Ég benti á, að hann hefði viljað sýna fram á, að menn vildu ekki gera samning um bátakaup vegna öryggisleysis í verðlagsmálum, vegna áhrifa verðlagsvísitölunnar á samninga, og þess vegna yrði stj. að ganga fram fyrir skjöldu. Af þessu dró ég þá almennu ályktun um ástandið. Í stað þess að svara því fór hv. þm. Vestm. að tala um ástandið fyrir 10–12 árum, og skorast ég ekki undan að ræða það þegar tími vinnst til. En það var heldur lélegt innlegg í þær umr., sem hér hafa farið fram, og aðeins til þess að reyna að draga athygli frá því, hvernig er komið fyrir stjórnarmeirihlutanum nú.