15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

7. mál, skipakaup ríkisins

Frsm. meiri hl. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er borið fram til staðfestingar á brbl., og hefur því dvalizt alllengi hjá n. og fulllengi. N. hélt fund um þetta mál í dag. Fjórir nm. mæltu með því, einn með fyrirvara. Hins vegar lét einn nefndarmaður, hv. þm. V.-Húnv., þess getið, að hann óskaði upplýsinga um framkvæmd á þessum brbl., áður en hann tæki afstöðu.

Þetta frv. fjallar um að láta smíða eða kaupa fiskiskip utan lands eða innan. Og með því að láta smíða skipin innanlands, hefur verið unnið verk, sem er þarft fyrir okkar skipasmíðastöðvar. Það er ekki viðunandi fyrir þjóð, sem ætti að vera ein mesta fiskveiðaþjóð Evrópu, að geta ekki smíðað skip, a. m. k. hin smærri. Og það er ekki fært fyrir skipasmíðastöðvar okkar að láta smíða þessi skip öðruvísi en með því að tryggja afsetningu á þeim. Og ekki er hægt a. m. k. að tryggja afsetningu á þeim, nema með því að gera samninga um sölu á þeim fyrirfram, áður en þau eru smíðuð. Og samningar, sem ríkisstj. hefur gert við margar skipasmíðastöðvar okkar, hafa orðið til þess að ýta undir þessa mjög þörfu grein innlendrar framleiðslu, og mun vafalaust sýna sig seinna meir, að þetta á mikinn þátt í því að skapa okkur hér skipasmíðastöðvar, sem síðar meir — ef ekki tiltölulega fljótt — verða samkeppnisfærar við erlendar skipasmíðastöðvar. — Fjhn. ákvað því að mæla með þessu frv., og legg ég því til fyris hönd n., að því verði, að lokinni þessari umr., vísað til 3. umr.