15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

7. mál, skipakaup ríkisins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, mun vera samhljóða brbl., sem út voru gefin einhvern tíma á árinu 1945. Frv. þetta var til 1. umr. í þessari hv. d. hinn 8. dag októbermánaðar á því ári, og var því þá vísað til fjhn. Árið 1945 leið nú í aldanna skaut, án þess að málið væri nokkru sinni tekið fyrir í fjhn. Og enn liðu þrír mánuðir og hálfur af árinu 1946. En svo loks, mánudaginn 15. apríl á því ári, síðari hluta dags, þá var haldinn fundur í fjhn. og þá var mál þetta tekið fyrir. Ég óskaði eftir því þá, að n. leitaði nokkurra upplýsinga um það, hverjar framkvæmdir þegar hefðu verið gerðar samkv. þessum brbl., því að ekkert slíkt hafði borizt n. nokkru sinni. En aðrir nm. töldu, að ekki væri tími til þess að fá þær upplýsingar, og ákvað meiri hl. n. að mæla með frv., án þess að nokkrar skýringar lægju fyrir á frv. Ég sé mér hins vegar ekki fært að taka þátt í meðferð málsins, meðan engar upplýsingar liggja fyrir um framkvæmdir eftir þessum brbl. En ég geri ráð fyrir, að nál. mitt um þetta mál komi fljótlega, þó að ekki liggi það fyrir , nú á þessum fundi.

En ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að bera hér fram spurningar, sem ég vænti, að annaðhvort hv. frsm. meiri hl. n. eða hæstv. atvmrh. geti gefið svör við, annaðhvort nú eða þá á næsta fundi. Í fyrsta lagi: Hvað hefur verið samið um smíði á mörgum skipum samkv. þessum brbl. og hjá hvaða skipasmíðastöðvum? Í öðru lagi: Hver er stærð þessara skipa og umsamið verð? Og í þriðja lagi: Er búið að selja nokkuð af þessum skipum?