16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

7. mál, skipakaup ríkisins

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Hv: þm, V.-Húnv. gerir mikið úr því, að skip þau sem ríkisstj. lætur smíða hérlendis, séu dýr, og ég get viðurkennt það. Hann dregur þá ályktun, að við ættum að láta smíða þessa báta erlendis. Hvað við kemur sænsku bátunum, þá verða þeir dýrari en tilboðaverð gefur til kynna, og ég dreg í efa tölur þessa hv. þm. Sænsku bátarnir verða líklega um það bil 25% ódýrari en þeir, sem byggðir eru hér.

Eigum við að láta smíða þessa báta hérlendis eða leita annað? Það er varla forsvaranlegt fyrir ríkisstj. að ganga alveg fram hjá okkar skipasmíðastöðvum. Við verðum að halda þeim gangandi, og má taka tillit til þess, að við þurfum á þeim að halda í sambandi við viðgerðir og vera viðbúnir að hafa þær eins fullkomnar í framtíðinni til þess og unnt er. Rétt er það, að þessir bátar eru dýrir, og ríkisstj. hefur ákveðið að gera ekki fleiri samninga að svo stöddu, og er því óþarfi að Alþ. setji hér nokkur l. um það, enda hefur ríkisstj. þetta í hendi sér þrátt fyrir það og gæti sett brbl., ef henni sýndist svo við horfa.

Hvað viðkemur sölu bátanna og þeim óákveðna tíma, sem þeir eru tilbúnir á, þá stafar sá dráttur aðallega af því, að við þurfum að flytja inn vélarnar, og kemur fyrir, að þótt vél hafi verið lofað í maí, þá kemur hún ekki fyrr en í október. Ýmsar aðrar ástæður koma til greina í sambandi við það, að ekki hefur verið unnt að ákveða, hvenær bátarnir yrðu tilbúnir, og er yfirleitt ekkert hægt að segja um þetta, fyrr en vélarnar eru komnar. Ýmsir menn hafa spurt um þessa báta, og hafa 47 umsóknir um þá borizt. Þessi tilboð eru ekki skuldbindandi, en þessar umsóknir sýna þó ljóst þann áhuga, sem er fyrir þessum bátum. Það er nú það ástand í landinu, að næg vinna er. En ef bátasmíðinni í landinu væri útrýmt, þá er líklegt, að að mundi þrengjast er versnaði í árum og við yrðum að vinna úr okkar efni sjálfir. Ég legg því áherzlu á að efla innlenda skipasmíði, enda er það öruggara upp á framtíðina.