16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

7. mál, skipakaup ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Hv. 2. þm. Reykv. talar um fjandskap við sjávarútveginn. En ég held, að þessi hv. þm. ætti að athuga það, að það er skrýtið vináttubragð, ef útgerðarmenn eiga að borga 10–11 þús. kr. fyrir tonnið í þessum bátum, sem hægt er að fá fyrir 5–6 þús. kr. tonnið. Þetta er undarlegur hugsunarháttur. Þessi hv. þm. veit lítið, hvað hann er að segja, og það er kunnara en svo, að það þurfi að taka það fram, hvaða gagn sjávarútveginum hefur verið af afskiptum þessa hv. þm.

Ég sagði aldrei, að Nýbyggingarráð hefði verið gegn því að veita leyfi til að flytja báta inn, en mér er ekki kunnugt um, að ríkisstj. eða Nýbyggingarráð hafi gert ráðstafanir til að útvega ódýra báta erlendis, en í mesta lagi veitt leyfin. Það hafa ekki verið gerðar ráðstafanir til að kaupa ódýra báta í Danmörku. Ef heil brú hefði verið í öllu þessu, þá hefði ríkisstj. óðara átt að senda mann til Danmerkur og semja um kaup á bátum. Það er ekki af ást til sjávarútvegsins, að ríkisstj., gerði þessa samninga um bátasmíði hér, og það er ekki hægt að hugsa sér gleggri viðurkenningu en þá, að þær einu framkvæmdir, sem ríkisstj. réði við, þessir 8 bátar hjá Landssmiðjunni, voru afturkallaðar.

Hv. 2. þm. Reykv. segir, að það sé misskilningur, að menn sæki ekki eftir bátunum. Hvers vegna selur ríkisstj. þá ekki bátana? Því semur hún ekki við þessa menn um kaup á þessum bátum? Ætlar hún að bíða, þar til það kemur betur í ljós, hversu þessir bátar eru dýrari en bátar erlendis? Nei, þetta er ekki rétt hjá hv. 2. þm. Reykv. Bátana vantar, en menn vilja bíða, þangað til ríkisstj. eða ríkið verður að taka á sig skerf af þessum óheppilegu ráðstöfunum, og reynt er að fá ódýrari báta erlendis. Hitt, að það sé kapphlaup um bátana á þessu verði, er slúður.

Þá sagði hv. 2. þm. Reykv., að hægt væri að reka bátasmíðar hér í samkeppni við aðra. Ég tel, að bátasmiðir eða tækni til bátasmíða sé ekki verri hér en annars staðar, en það er vegna þess, að hér er haldið uppi verðbólgu af ráðnum hug, að nærri engin atvinnugrein getur keppt við aðrar þjóðir. Það er þessi verðbólga, sem haldið er uppi af ráðnum hug, sem veldur ástandinu í bátaiðnaðinum. Og ein aðaldriffjöðrin í því að halda uppi þessari dýrtíð er hv. 2. þm. Reykv. Ég álít, að það sé stórkostlegur skaði, ef hætt yrði að smíða hér báta, en ég tel, að ekkert vit hafi verið í að gera þessa samninga. Það er augljóst mál, að íslenzkur sjávarútvegur þolir það ekki, að þau tæki, sem hann þarfnast, kosti helmingi meira hér en annars staðar. Ég get fallizt á, að vit geti verið í því að styðja að slíkum iðnaði um stundarsakir, en að gera svo stórfelldan samning á þessum tíma nær vitanlega engri átt. Hér hefði átt að hafa svipaða aðferð og lagt var til í sambandi við togarakaupin. Fyrst átti að kynna sér eftirspurnina og vita, hvað þeir kostuðu, og síðan átti að spyrja þá, sem höfðu hug á að eignast báta, hvort þeir vildu í sínu nafni gera samninga með þeim kjörum, sem fáanleg voru. Ég hygg, að það sé sama, hvaða iðnaður það er í sambandi við sjávarútveginn, að hann geti ekki þrifizt, ef hann er dýrari en erlendur iðnaður. Sjávarútvegurinn á í svo harðri baráttu við erlendar þjóðir, að það má ekki íþyngja honum á nokkurn hátt. Ef ekki er hægt að fá tækin jafnódýr innanlands og erlendis, verður að kaupa þau erlendis frá.