22.07.1946
Sameinað þing: 1. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í B-deild Alþingistíðinda. (1)

Forseti Íslands setur þingið

Voru framantaldir þingmenn allir á fundi. Ókomnir voru til þings þessir alþingismenn:

1. Gylfi Þ. Gíslason, 4. þm. Reykv.

2. Jónas Jónsson, þm. S.-Þ.

Enn fremur sat fundinn:

Haraldur Guðmundsson, 4. (vara)þm. Reykv.

Forseti Íslands setur þingið.

Þá er þm. höfðu skipað sér til sætis, kom forseti Íslands, Sveinn Björnsson, inn í salinn, gekk til ræðustóls og mælti á þessa leið:

Í ríkisráði 17. þessa mán. var gefið út svo hljóðandi forsetabréf:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Að ég hef ákveðið, að Alþingi skuli koma saman til fundar mánudaginn 22. júlí 1946.

Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþ., boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþ. sett, eftir að guðsþjónusta hefur farið fram í dómkirkjunni, og hefst hún kl. 10 árdegis.

Ritað í Reykjavík, 17. júlí 1946.

Sveinn Björnsson.

Ólafur Thors.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman til aukafundar mánudaginn 22. júlí 1946.“

Samkvæmt bréfi því, er ég nú hef lesið, lýsi ég yfir hví, að Alþ. er sett.

Frá því Alþ. var endurreist fyrir 101 ári, er þetta 80. samkoma þess, en frá því er það fékk aftur í hendur löggjafarvald 1874, er þetta 65. þing í röðinni, en 17. aukaþing.

Um leið og ég býð hið nýkjörna þing velkomið til starfa, vil ég biðja alþingismenn að minnast fósturjarðar vorrar, Íslands, með því að rísa úr sætum.

Þingheimur stóð upp, og forsætisráðherra, Ólafur Thors, mælti: „Lifi Ísland!“ Var tekið undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.

Forseti kvaddi nú elzta þingmanninn, Ingvar Pálmason, 1. þm. S.-M., til þess að stýra fundi, þar til er kosinn væri forseti sameinaðs Alþingis. Gekk forseti Íslands síðan úr salnum.

Aldursforseti gekk þá til forsetastóls og tók við fundarstjórn. Kvaddi hann sér til aðstoðar sem fundarskrifara þá Skúla Guðmundsson, þm. V.-Húnv., og Sigurð Kristjánsson, 5. þm. Reykv.