01.10.1946
Efri deild: 9. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

6. mál, lýsisherzluverksmiðja

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Hv. fyrirspyrjandi, 1. landsk. þm., kvað svo að orði, að rétt væri, að þm. fengju að vita, hvað til stæði samkv. þessu frv. Það sést nú að vísu á frv, sjálfu, að það er heimild til handa ríkisstj. um að verja allt að 7 millj. kr. til greiðslu á stofnkostnaði lýsisherzluverksmiðju. Það mál er bæði hv. 1. landsk. og öðrum hv. þm. kunnugt fyrir löngu. Og það hefur verið rætt hér á Alþ., að rétt mundi vera fyrir Íslendinga að koma upp þessari lýsisherzlustöð. Og það framtak, sem skeð hefur í þessu máli hjá núv. ríkisstj., finnst mér mega líta á sem framhald þess, sem þingið hefur áður látið frá sér fara. Það hefur sem sagt verið nokkuð einhuga vilji hér á Alþ. fyrir því, að lýsisherzluverksmiðju yrði komið upp. Ég hef þó nokkuð heyrt talað með því, en lítið á móti. Nú er málinu komið svo langt, að ríkisstj. og þá einkum sá ráðh., sem með þessi mál fer, hæstv. atvmrh., hefur skipað n. til þess að ganga frá þessu máli og hafa framkvæmdir með höndum. Hefur n. nú valið stað að því ég bezt veit. Og fyrir nokkru voru 2 nm. staddir í nýbyggingarráði og létu þar upp þá ætlan sina, að þeir ætluðu að fara utan til frekari rannsókna og undirbúnings þessu verksmiðjumáli. Það, sem hér er farið fram á, ef þetta frv. verður samþ., er ekki annað en það, að fullkomna þá fyrirætlun þingsins, að stj. hafi fulla heimild í þessu efni, hvort sem sú heimild verður notuð eða ekki. Sá undirbúningur, sem þegar hefur farið fram, er ekki svo mikill og sízt svo kostnaðarsamur, að hægt sé að segja, að búið sé að ráðstafa neinu stórfé í þessu efni. Það, sem e.t.v. vakir fyrir hv. fyrirspyrjanda, er það, að maður hefur heyrt ýmsar meiningar um það, hvar slík verksmiðja átti að vera staðsett. Um það kunna að vera mismunandi skoðanir, en það er augljóst á því, sem fram hefur farið, að þeir, sem ráða þessum málum nú, ætla að staðsetja verksmiðjuna á Siglufirði. En þar sem hv. þm. vék ekki beint að þessu, þá skal ég ekki að þessu sinni fara nánar út í það mál. En fjhn. hefur verið látin í té skýrsla eða álit verksmiðjun., sem er rökstuðningur fyrir staðsetningu verksmiðjunnar. Hv. þm. sagði, að hér vær í um svo stóra fjárhæð að ræða, og því væri ekki nema rétt, að hv. þm. fengju að vita, til hvers ætti að nota féð. Það leiðir af sjálfu sér, eins og frv. ber með sér, hvað ætlað er að gera við þetta lán, sem ætlað er að heimila ríkissjóði að taka. Þetta er stór upphæð, en orðalagið er þannig, að það er miðað við allt að þessari upphæð. Að öðru leyti er það ekki á mínu valdi sem frsm. fjhn. að gefa hv. d. ýtarlegri upplýsingar að þessu sinni, nema þess sé óskað, að ég lesi upp rökstuðning verðsmiðjun. fyrir staðsetningu verksmiðjunnar. En ég vil ekki þreyta hv. þm. með því að lesa hann upp nema sérstakt tilefni gefist. En sé óskað frekari upplýsinga, þá býst ég við, að sá ráðh., sem hefur með þetta mál að gera, þurfi að koma til. Að svo stöddu mun ég ekki fara nánar út í þetta mál, nema frekara tilefni gefist til.