07.10.1946
Neðri deild: 12. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

2. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Pétur Ottesen:

.... .... .... .... .......... .... En að mínum dómi gegnir svo allt öðru máli um þau réttindi, sem hér á að fara að veita Færeyingum. Hv. frsm. talaði um, að þessi réttindi væru mjög takmörkuð. Það eru þau að vísu. Þau eru bundin við að nota ákveðin skip og ákveðin veiðitæki. Þó má samkvæmt orðalagi l. ef til vill leggja í það mismunandi skilning, hvort veiði þeirra á opnum bátum sé eingöngu bundin við handfæraveiðar. Mér skilst, að ef til vill mætti skilja orðalag þessarar gr. svo, að svo væri ekki, heldur einnig við stóru skipin, og ef þeir eiga að halda þeim réttindum, sem þeir hafa haft hér á þilskipum og opnum bátum, þá hefur veiði á opnum bátum verið stunduð sem línuveiði, og ekki mundi af hálfu Færeyinga og þeirra, sem sækja þeirra mál, vera litið svo á, að þeir héldu þeim sömu réttindum og þeir hafa haft, ef þetta væri undirskilið. Frsm. segir, að þetta sé mjög lítilsvert atriði, m.a. af því, að skipin, sem þar um ræðir, væru að verða úrelt. Ég veit ekki um það, hvort frsm. gerir sér fulla grein fyrir því, sem hann er að segja, þegar hann segir, að þetta sé þýðingarlítið. Það er alkunna, að af Íslendinga hálfu eru friðaðir firðir og flóar á strandlengju landsins, og er það fyrst og fremst gert í því augnamiði að auka viðkomu fisksins og auk þess skapa innan þessa svæðis aðstöðu fyrir handfæra- og línuveiðar. Nú í fyrsta skipti lítur út fyrir, að Íslendingar muni fá vilja sínum framgengt í þessu efni, a.m.k. að því er snertir einn af fiskauðugustu flóum þessa lands, Faxaflóann, og með tilliti til þessa má mjög gjalda varhuga við ummælum hv. frsm. um það, að hér sé um þýðingarlítil réttíndí að ræða, því að eftir því, sem lengur er friðað, skapast meiri skilyrði til þess að stunda hinar handhægu og ódýru veiðiaðferðir, handfæra- og línuveiðar. Þess vegna er hér um mjög þýðingarmikið atriði að ræða, aukningu fislastofnsins, þó að það verði ekki til staðar nú nema í litlum mæli, þegar búast má við þeirri örtröð, sem er af veiðum í hverjum firði og flóa þessa lands.

Nú skyldu menn athuga mjög vel, í sambandi við afsal á réttindum í hendur ríkisborgara einnar þjóðar, að það eru líkur til þess, að aðrar þjóðir krefjist sams konar samninga og ein þjóð nær í þessu efni, ef aðrar þjóðir teldu sér Magnað að því að geta fengið hér slíka samninga. Og það er vafalaust, að í samningum þjóða á milli, þótt stórar þjóðir eigist við, þykir ekki á því stætt að veita einni þjóð réttindi, sem annarri er neitað um, — og þegar svo stendur á sem hér er, mundi þetta ekki síður koma fram. Ég tel þess vegna mjög varhugavert að fara inn á þá breyt., sem hér er lagt til í þessu frv., með tilliti til þeirra röksemda, sem ég hef nú fært fram, og ég verð að segja, að það kemur einkennilega fyrir sjónir, að Danir séu að berjast fyrir því, að Færeyingar fái þessi réttindi hér við strendur Íslands, þegar tekið er tillit til þess, hvernig þeir hafa skert réttindi þeirra við strendur Grænlands, þó að þeir fari þar með réttindi, sem öðrum ber, m.a. okkur. Það er alkunna, að þeir skömmtuðu Færeyingum svo naumt, að þeir máttu ekki stinga stafni við nema á 1–2 höfnum í Grænlandi og voru eltir uppi með fallbyssukjöftum, þó að þeir gerðu ekki annað en ná í vatn til þess að svala þorsta sínum — eða ná í aðrar nauðsynjar. — Ég sé, að frsm. hefur farið út, en ég vildi gjarnan, að hann heyrði mál mitt .......... Ég sé, að frsm. er ekki að vænta, og held því áfram máli mínu. — Mér þótti einkennilegt það, sem kom fram hjá hv. frsm., sem mun hafa verið þátttakandi í samningum, sem hér fóru fram fyrir skömmu milli manna frá Danmörku og manna frá ríkisstj. Íslands um þessi mál, sem sé það, að þessi fiskveiðaréttindi til handa Færeyingum, sem líka gætu verið fiskveiðaréttindi til handa Dönum, skyldu gjaldast með því, að okkur væru afhent hin íslenzku handrit, sem hafa um langt árabil verið geymd í dönskum söfnum og tvímælalaust eru okkar eign. Þetta þykir mér harðla einkennilegt, og ég furða mig á því, að þetta skuli hafa komið fram í sambandi við þá samninga, því að krafa okkar til þessara skjala er vitanlega byggð á því, að við eigum þau og höfum fullan rétt til þess að krefjast afhendingar á þeim sem okkar einkaeign. Þess vegna er sérstaklega einkennilegt, að hér á að bjóða fram þessi réttindi, sem eru hluti af þýðingarmestu verðmætum þessarar þjóðar, fiskveiðaréttindin við strendur landsins, og nota þau sem nokkurs konar gjald fyrir þessa einkaeign okkar í dönskum söfnum. Það má náttúrlega búast við því — og hefur enda komið fram —, að hinn langi geymslu- og varðveizllutími þessara skjala verði af hálfu Dana notaður til þess að sanna yfirráðarétt þeirra og spyrna á móti því, að Íslendingar fái flutt til sín þessa sína eign, og þarf okkur ekki að undra það, eftir önnur viðskipti okkar við Dani, er við höfum verið að heimta þann rétt, sem þeir hafa haldið fyrir okkur. Hitt má okkur aldrei henda, að fara að bjóða gjald fyrir að fá þessa einkaeign okkar, og ekki megum við heldur kippa okkur upp við það, þótt það taki nokkurn tíma að fá þessum kröfum framgengt. Við höfum þurft að berjast öldum saman til þess að fá sjálfstæði okkar, og við skulum vona, að það taki okkur ekki jafnlangan tíma að fá þessi skjöl. Við eigum að knýja fram þann rétt — ekki eingöngu í Danmörku, heldur og annars staðar, að Danir eigi að láta okkur hafa þessi skjöl.

Í sambandi við fiskveiðar Dana hér við land talaði frsm. um, að einhver fríðindi hefðu verið fengin til atvinnurekstrar við strendur Grænlands. Það er alkunna, að fræðimenn hafa þá skoðun, að Íslendingar eigi slíkan rétt — ekki einasta við strendur Grænlands, heldur eigi þeir rétt til atvinnurekstrar á Grænlandi. Það hefur komið fram þáltill. hér á Alþingi um það, að Íslendingar skuli krefjast þessa réttar, og ef ekki fengist viðurkenndur þessi réttur; skuli úr því skorið fyrir alþjóðadómstóli. Þetta hefur ekki verið gert, og þess vegna vil ég láta í ljós þá skoðun mína, að þessa réttar eigi að krefjast, — og meðan ekki fæst úr því skorið fyrir alþjóðadómstóli, hvort við eigum þessi réttindi eða ekki, þá á ekki að vera að bjóða Dönum hér þýðingarmikil réttindi sem gjald fyrir þau réttindi, sem okkur ber á Grænlandi. Ég vil þess vegna mæla því í gegn, að slík aðferð sé viðhöfð af hálfu Íslendinga, og átelja það beinlínis í þeim samningaumleitunum, sem hér fóru fram fyrir skömmu.

Svo vil ég að lokum benda á það í sambandi við orðalag þessarar gr., að Færeyingar eiga að halda þessum rétti, sem um er talað, þar til samningum er lokið. Nú vitum við, að Danir eru líklegir til þess að vilja halda í þessi skjöl og afhenda þau ekki, en ef þeir geta auk þess með því skapað sér réttindi til langframa til fiskveiða fyrir Færeyinga — og þá að sjálfsögðu með því að láta Færeyinga gerast leppa fyrir sig, — þá finnst mér nú fyrst skörin vera farin að færast upp í bekkinn og vil segja það, að mér finnst einkennilega á málum haldið að vilja leggja þannig upp í hendurnar á Dönum nýja ástæðu til þess að stöðva þessa samninga, — sem sé að þeir geti haldið lengur í þennan rétt með því að ljúka þeim ekki, með því að leggja fé í færeyska útgerð og með því, að sú útgerð, sem þeir reka, sé rekin frá Færeyjum. Við vitum nú, hvernig Færeyingum gengur að koma í framkvæmd sínu sjálfstæði. Að afstaðinni atkvgr. hjá þeim, þar sem samþ. var að segja skilið við Dani, þá ruku Danir til og rufu þing hjá þeim, eins og þeir rufu þjóðfundinn hjá okkur 1851. Það hafa kannske ekki staðið vopnaðir menn yfir þeim, en þeir sendu herskip til Færeyja, — það kom í blöðunum hér, að það væri vélskip, en mér skilst, að það geti farið saman. Svo að Danir sýna fullkomna viðleitni til þess að halda opnum möguleikum fyrir sig einnig til þess að geta notið þessara réttinda við strendur Íslands.

Ég vil þess vegna mælast til þess við forseta, að hann gefi deildarm. tækifæri til þess að koma fram með brtt. við þá brtt., sem hér liggur fyrir, og að málinu verði ekki hraðað svo, að ekki gefist tími til þess, því að það er vert, að ákvæði gr. séu athuguð, eins og málin standa milli Íslands og Danmerkur.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en ég mun greiða atkv. á móti þessari brtt. um rétt Færeyinga til fiskveiða hér, og ég vil bæta því við, að þetta mál hefur verið borið undir Fiskifélag Íslands, og það hefur algerlega neitað afsali nokkurra réttinda jafnframt því, sem það hefur skorað á ríkisstj. að standa á verði gegn öllum tilraunum til þess, að rýrður verði réttur okkar yfir landinu.