09.10.1946
Efri deild: 14. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

2. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Ég held, að tillögur hv. þm. Barð. (GJ) eigi talsverðan rétt á sér. Störf samninganefndarinnar milli Íslands og Danmerkur í haust virðast hafa orðið frámunalega lítil. Virðist því engin ástæða fyrir Alþingi að gera ráðstafanir þessari óveru til staðfestingar. Nefndin gekk alveg fram hjá þeim höfuðatriðum, sem ýmsir ætluðust til, að tekin yrðu fyrir. Ég vil taka það fram, að ég á ekki við skjalamálið, heldur fiskveiðamálin.

Ég lít svo á, að það sé lítil ástæða fyrir Íslendinga að vera að gefa Dönum fjöður í hatt sinn til að skarta með í Færeyjum. Í ljósi atburða síðustu daga tel ég enn ríkari ástæðu til að taka tillit til óska hv. þm. um að athuga þetta mál betur.

Ég tel mig sem utanríkismálanefndarmann á engan hátt bundinn þessum samningum, því að þeir hafa ekki verið undir nefndina bornir.