09.10.1946
Efri deild: 14. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

2. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil benda hv. 10. landsk. þm. á, að hann tekur fram í nál., að hann telji þetta ekki heppilega lausn, og enn fremur að þótt 1. gr. sé ekki samþ., standi þessi ákvæði óhögguð í stjórnarskránni.

Varðandi 2. gr. vildi ég benda á, að síðan er samningarnir voru gerðir, hefur verið lýst yfir sjálfstæði Færeyja, en það ekki viðurkennt af Dönum. Vil ég einnig, að því sé lýst yfir, að um þetta skuli Íslendingar semja við Færeyinga.

Færeyingar munu ekki þurfa að nota þennan rétt, er um ræðir, fyrr en að þrem mánuðum liðnum, því að bátar þeirra og skútur fara eigi til veiða fyrr en í febrúar og marz og því nógur tími til samninga.

Ég mun við 3. umr. flytja brtt. um, að 2. gr. falli niður.