24.09.1946
Efri deild: 2. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

4. mál, rannsóknarstofnun í búfjármeinafræði

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Á haustþinginu 1944 voru samþ. lög, sem heimiluðu ríkissjóði að verja einni milljón króna til að reisa tilraunastöð að Keldum, gegn því að Rockefellerstofnunin legði fram jafnmikið fé til þessarar stofnunar.

Það mun hafa verið gengið út frá, að Rockefellerstofnunin samþykkti að veita féð, án þess að setja skilyrði um, að það gengi til tilrauna í búfjársjúkdómum hér.

Ekki gekk greitt, að Rockefellerstofnunin legði fram féð, heldur dróst það á langinn og var frestað.

En á árinu 1945 fór væntanlegur forstöðumaður tilraunastöðvarinnar, Björn Sigurðsson, vestur um haf, og eftir samtöl við hlutaðeigandi menn, samþykkti stofnunin að veita 150 þús. dollara framlag, þannig að tilraunastöðin félli undir háskólann, en hún hefur heyrt undir landbúnaðarráðuneytið, og varð því að breyta skipulagi hennar.

Á síðasta þingi lá fyrir frumvarp um, að atvinnudeildin yrði lögð undir háskólann, en það dagaði uppi. En á þessu ári varð að taka ákvörðun um byggingu stöðvarinnar, og hætta gat verið á, að framlag Rockefellerstofnunarinnar glataðist.

Bráðabirgðalög voru því sett þann 4. júní, að tilraunastöðin að Keldum skuli lúta læknadeild háskólans, svo að lægt sé að fá framlag Rockefellerstofnunarinnar. Hér liggur nú fyrir frv. um, að tilraunastöðin falli undan landbúnaðarráðuneytinu til háskólans. Skiptar skoðanir eru um það, hvort betra sé. Ég tel, að eðlilegt sé, að stofnun sem þessi sé í tengslum við háskólann. Gert er ráð fyrir, að starfssvið hennar beinist að búfjársjúkdómum og starfsemin miði að því að lyfta undir landbúnaðinn fyrst og fremst. Ég hef tekið fram, að skoðanir um eðli stofnunarinnar skipti ekki svo miklu máli, heldur er aðalatriðið að fá framlag Rockefellerstofnunarinnar. Ég mælist til, að þessu frv. verði vísað til menntmn. að lokinni umr.