24.09.1946
Efri deild: 2. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

4. mál, rannsóknarstofnun í búfjármeinafræði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég mundi telja eðlilegt, þegar stofnun sem þessi risi upp, yrði hún ekki deild háskólans, heldur teldist hún undir landbúnaðarráðuneytið, eins og tíðkast í Danmörku og Svíþjóð. Þó skal ég ekki leggja móti þessu, en þó er þörf nokkurra breytinga.

Í læknadeild og háskólaráði eru menn, sem þekkja ekki, hvar skórinn kreppir að í þessu efni, en engir mundu um málið fjalla frá landbúnaðinum. Hér eru ráð, sem heita tilraunaráð landbúnaðarins, annað í jarðrækt, hitt í búfjárrækt. Í lögum um þetta efni er ætlazt til, að tilraunaráð búfjárræktar ákveði, hvaða tilraunir skuli gera í búfjárrækt ár hvert.

Athuga þarf að leggja það fyrir þessa stofnun, sem mest kallar að, en hætta getur verið á, að áhugi manna þeirra, sem við stofnunina vinna, beinist að öðrum viðfangsefnum en þeim, sem mest er knýjandi að leysa á hverjum tíma. Það er hægt að finna dæmi frá öðrum löndum um slíkar stofnanir, sem hafa verið ríki í ríkinu og ekki unnið að þeim verkefnum, sem mest þörf hefur verið á. Dæmi um það get ég nefnt frá Danmörku og Svíþjóð.

Við treystum, að stofnunin verði í „kontakt“ við landbúnaðarráðuneytið, og búa þarf um lögin þannig, að tengiliður verði þar í milli. Vildi ég biðja hv. n. að athuga þetta.