08.10.1946
Efri deild: 13. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

4. mál, rannsóknarstofnun í búfjármeinafræði

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. — Hv. 10. landsk. þm. var að tala um það — að mér fannst —, að ég væri farinn að bera mikið traust til hæstv. ríkisstj. Ég veit nú ekki, hvað segja má um það, hvort það hefur nokkuð vaxið, þótt ég sé fylgjandi þessu frv., því að þó að ég í meginatriðum hafi talið núverandi hæstv. ríkisstj. fara óheppilega með völd sín, þá hefur það þó komið fyrir, að ég hafi fylgt sumum þeim málum, sem hún hefur staðið að, þótt þau hafi gefið henni eins mikið vald og 3. gr. frv.

Hv. 10. landsk. þm. sagði, að hæstv. landbrh. hefði ekkert fjallað um þetta mál. Veit ég ekki, hvers vegna hv. þm. heldur þessu fram, því að hann lagði málið fyrir Alþ., talaði við allar umr. um það nema núna, og hann gaf ákveðnar upplýsingar um það við síðustu umr. málsins hér í hv. d., hvað margir starfsmenn ættu að vinna við stofnunina, og þótt menntmrh. eigi að taka við þessu, þá verð ég að telja það nokkurs virði, hvað hæstv. landbrh. sagði um þetta, því að eins og síðasti ræðumaður tók fram, verður að líta þannig á, að hæstv. landbrh. hafi talað fyrir hönd hæstv. ríkisstj. — Ég er ekki svo vel að mér eða man ekki svo vel öll lög, að ég geti beinlínis bent á, þar sem ríkisstj. er gefin heimild til að skipa starfsmenn hliðstæða þessu, sem þarna á að gera á Keldum, og þó hygg ég, að hér sé ekki nema um aðstoðarmenn að ræða. Ég hygg, að hæstv. ríkisstj., forstöðumenn og aðrir embættismenn hér í Reykjavík, eins og t.d. lögreglustjóri, tollstjóri, borgardómar í og hvað þeir nú heita allir saman, hafi eins víðtækt vald til að fjölga starfsmönnum, sem eru háskólagengnir, og hér er um að ræða, og það mun ekki vera tekið fram um það í l., hvað fulltrúar við hinar ýmsu stofnanir eigi að vera margir, en á hinn bóginn er tekið fram um það í launal., hvað þeir eigi að hafa í laun. Hér er líka tekið fram, hvað þessir sérfræðingar eigi að hafa í laun, en hins vegar mun ég ekki greiða atkv. um það, hvað þessi stofnun þarf á mörgum að halda, nema ég geti kynnt mér það mjög vandlega, en nú er þessu þ. að ljúka og því mjög naumur tími til slíks. — Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. N.--M. (PZ), að ég tel brtt. hv. 10. landsk. þm. töluvert varhugaverða, ef launakjör þessara starfsmanna eiga að fara eftir fjárlagaákvæðum, sem ekki gilda nema eitt ár, og er ég hræddur um, að illa gangi með ráðningu starfsmanna við stofnunina, ef ekki á að ráða þá nema til eins árs í einu.

Hvað viðvíkur fjölda starfsmanna þarna, þætti mér ekkí sönnu fjær, að auk forstöðumanns skuli vinna dýralæknir og efnafræðingur, og að þeir skuli taka laun eftir 6. fl. launal. Þá væri þessu slegið föstu og ekki miklu spillt fyrir framtíðinni, því að vitanlega mætti breyta l. síðar, þótt frv. yrði samþ. nú, og bæta manni við stofnunina, ef nauðsyn krefði.