22.07.1946
Sameinað þing: 2. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

1. mál, bandalag hinna sameinuðu þjóða

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Ég vil aðeins geta þess út af lokaummælum hv. þm. Str. (HermJ), að ég hef gengið út frá því, að sáttmáli hinna sameinuðu þjóða væri í höndum alla stjórnmálafl. þingsins, þar eð við í vetur fengum með sérstökum ráðstöfunum nokkuð mörg eintök af sáttmálanum frá London. Var þeim útbýtt meðal meðlima hinnar svokölluðu tólf manna n., og var ætlast til, að hver flokkur hefði þar nokkur eintök til meðferðar. Að öðru leyti má vel vera, að æskilegt hefði verið, að þjóðin hefði fengið meiri vitneskju um þennan sáttmála, en ég vænti, að af því hljótist ekki neinn skaði og að fulltrúar þjóðarinnar á hv. Alþ. reynist þess færir að taka ákvörðun um þetta mál, eins og svo mörg önnur vandamál, sem þeir þurfa að leysa í nafni þjóðarinnar samkv. því umboði, sem þeir hafa fengið frá henni til að fjalla og taka ákvörðun um.