23.07.1946
Sameinað þing: 3. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

1. mál, bandalag hinna sameinuðu þjóða

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Ég vil leyfa mér að þakka hv. utanrmn. fyrir afgreiðslu málsins og láta í ljós ánægju mína yfir því, að hún hefur orðið einhuga um till. sína í málinu. Ég hef haft tækifæri til þess að fylgjast með starfi n., og sá ágreiningur, sem þar kom fram, var raunverulega ekki málefnislegs eðlis, heldur, eins og hv, þm. Str. sagði, um það frá þeirra hendi, hvort rétt þætti að tilkynna framkvæmdastjórn öryggisráðsins orð fyrir orð nál. eins og það liggur fyrir á þskj. 11. Eins og fram kemur í áliti þeirra sérfræðinga, sem með málið höfðu að gera og voru ríkisstj. til aðstoðar og prentað er á þskj. 1, líta þeir þannig á, að þær kvaðir, sem samkv. 43. gr. sáttmálans verða lagðar á okkur, beri að skilja á þá leið, sem fram kemur í nál. á þskj. 11, og í þeirri ræðu, sem ég flutti hér í gær, þegar málið var lagt fyrir hæstv. Alþ., leyfði ég mér að benda á álit þeirra og láta í ljós sömu skoðun. Ég held þess vegna, að það megi staðhæfa það, að á hæstv. Alþ. sé ekki ágreiningur um þennan skilning, en hitt mun orka tvímælis, þótt ég hins vegar hafi ekki fulla vissu fyrir því, hvort tiltækilegt þætti og eðlileg málsmeðferð að láta fylgja inntökubeiðninni frá okkur og yfirlýsingu um það, að við viljum fella okkur við skilmála sáttmála hinna sameinuðu þjóða, tilkynningu um það, að málið hafi verið afgr. á Alþ. með þeim skilningi, sem fram kemur í nái. á þskj. 11.

Ég staðfesti, að það er rétt, sem hv. frsm. og hv. þm. Str. hafa sagt hér frá, að það hefur orðið að samkomulagi með utanrmn. og ríkisstj., að ef till. verður samþ., sem lögð var fyrir Alþ. um inntöku í bandalag hinna sameinuðu þjóða, þá muni á morgun verða sent bréf til fulltrúa þeirra fjögurra stórvelda, sem hafa hér umboðsmenn, og einnig til sendiherra Norðurlandaþjóðanna um það, að slík till. hafi verið samþ. eins og hún var afgreidd frá utanrmn. og greinir á þskj. 11. En hins vegar, af því að fulltrúar framsfl. í n. töldu æskilegt, ef hægt væri, að þessi skilaboð yrðu send beint til öryggisráðsins, þá lagði ég drög fyrir það, að í fyrramálið yrði símað til sendiherra Íslands í Washington og hann beðinn að afla upplýsinga um, hvort nokkuð væri til fyrirstöðu skv. starfsvenju öryggisráðs, að slík plögg fylgdu inntökubeiðni okkar beina leið til öryggisráðsins.

Ég mun ekki frekar en hv. þm. Str. ræða þá rökstuddu dagskrá né brtt., sem bornar hafa verið fram, en ég teldi það eðlilega málsmeðferð, ef hæstv. forseti vildi gefa fundarhlé í hálfa eða heila klukkustund og gæfist kostur á að athuga málið í flokkunum og e.t.v. í utanrmn., eins og hv. þm. Str. stakk upp á, og vildi ég þess vegna taka undir uppástungu hans og fara fram á, að hæstv. forseti gefi hálftíma eða klukkutíma fundarhlé, svo að hægt sé að athuga málið í n. og í flokkunum og á hvern hátt tiltækilegast er að afgreiða málið að framkominni þessari brtt.