25.07.1946
Sameinað þing: 4. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

1. mál, bandalag hinna sameinuðu þjóða

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. og formaður Alþfl. hefur gert grein fyrir afstöðu flokksins til þessa máls, þegar hann fyrir tveimur dögum talaði hér fyrir hönd utanrmn., svo að ég þarf í rauninni litlu við að bæta. En þó þykir mér hlýða að segja hér nokkur orð, vegna þeirra tillagna, sem síðar hafa komið fram.

Í nál. utanrmn. á þskj. 11 kom fram, að n. var þá, þegar málið var lagt fram af hennar hálfu, sammála um afgreiðslu þess á þann hátt að mæla með því, að till. ríkisstj. um að leita upptöku í bandalag hinna sameinuðu þjóða verði samþ., eingöngu með lítilli orðabreyt. Ég tel víst, að samþykkt þessi í utanrmn. hafi verið í samræmi við vilja — ef ekki allra, þá a.m.k. flestra — þm., sem óskuðu þess, að málið yrði afgr. samhljóða að sem allra mestu leyti. Það hafa líka komið fram aðrar skoðanir þm. á málinu, svo að ekki verður um villzt, þó að sú till. eða það álit hafi komið fram á óformlegan hátt, með þeim samþykktum, sem hér hafa áður verið gerðar. Þessi vilji þingmanna hefur líka komið fram í þeirri þátttöku, sem við höfum átt í hinni alþjóðlegu samvinnu á ýmsum vettvangi og mjög fer í sömu átt og hér hefur verið talað um. Þetta er líka í samræmi við þá yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. gaf hér fyrir hönd ríkisstj. um stefnu stj. og líka kom fram í stefnuyfirlýsingum flokkanna, a.m.k. sumra, og skal ég ekki fara lengra út í það. Ég tel mega slá föstu sem fyrsta atriði í þessu máli, að það er almennur vilji fyrir hendi um það, að Ísland gerist aðili í þessu bandalagi, takist á hendur skyldur nokkrar, sem menn að vísu geta ekki gert sér fyllilega grein fyrir í upphafi, hverjar eru. Okkar beztu fræðimenn hafa verið fengnir til að reyna að gera sér grein fyrir, hvernig þær liggja fyrir; og þeir hafa gert það skv. þskj. 1, sem hér hefur verið lagt fram. Þær mögulegu skyldur, sem við tökumst á hendur, verða ekki „aktuellar“ fyrr en Alþ. hefur samþ. þær á þann hátt að samþ. þá samninga, sem 43. gr. bandalagssáttmálans gerir ráð fyrir. Það er því á valdi Alþ. hverju sinni, hvað það samþ. af þessum skyldum, sem á að leggja okkur á herðar. Og Alþ. getur haft hvaða hátt, sem það vill, á því að samþykkja þær. Það getur viðhaft einfaldar samþykktir og borið undir þjóðaratkvæði, ef þurfa þykir. En kannske það alvarlegasta í þessu mál sé, að við losnum ekki við þessar skyldur, þó að við séum utan bandalagsins. Og það er skoðun margra, að hlutur landsins verði einmitt betur tryggður með því að vera samningsaðili og með þátttöku í bandalaginu, þannig að við tökum ekki þátt í neinum aðgerðum til að koma í veg fyrir ófrið, nema með samþykki okkar sjálfra. Hvað tekst að semja um, er ekki gott að segja. En það verður verkefni ríkisstj. á hverri stund að gera öryggisráði grein fyrir sérstöðu landsins með tilliti til hers og ófriðar. Ég tel þess vegna, að það sé í samræmi við álit fróðustu manna um þessa hluti, að við séum bezt tryggðir gegn einmitt þessum hættum, sem hér hafa verið nefndar, ef við er um aðili í bandalaginu.

Viðvíkjandi þeirri till., sem hér liggur fyrir á þskj. 9, vil ég fyrst taka fram, vegna þess að flm. till. er í Alþfl., að flokkurinn stendur ekki að till. og mun ekki greiða atkv. með henni. Þessa ákvörðun hefur flokkurinn tekið, þó að hann, eins og margir aðrir, geti að vissu leyti samþykkt það efni, sem í till. felst. Við teljum hana samt mjög óheppilega, vegna þess að skilyrðin fyrir inngöngu, sem sett eru í fyrri hluta till., gætu e.t.v. orðið til þess, að inntökubeiðnin yrði ekki tekin til greina, og mundum við þannig trufla þann megintilgang, sem ætlazt var til að ná með sjálfri till. Umr. um það, á hvern hátt Íslendingar geti tekið þátt í þeim aðgerðum, sem í framtíðinni kynnu að teljast nauðsynlegar til að halda uppi friði og öryggi í heiminum, þær hljóta að fara fram síðar, þegar við erum komnir í bandalagið og höfum öðlazt þar samningsrétt samkv. 43. gr. sáttmálans og Alþ. hefur gengið frá samningum, á hvern hátt sem það verður.

Í öðru lagi teljum við síðar í lið till. óheppilegan, vegna þess að þar er blandað saman við málið óskyldu atriði, sem er brottför leifa hins ameríska hers. Það hefur komið skýrt fram hjá öllum flokkum, alla tíð síðan hæstv. forsrh. gaf yfirlýsinguna í vetur um afstöðu ríkisstj. til herstöðvamálsins yfirleitt, að það sé æskilegt, að hér á landi dveljist enginn her. Og Alþfl. telur, að viðræður um þetta mál ætti nú að hefja sem allra fyrst milli íslenzku ríkisstj. annars vegar og stj. Bandaríkjanna hins vegar. Hæstv. forsrh. hefur nú lýst yfir, að hann muni taka þessa samninga upp við fyrsta tækifæri, sem honum gefst til þess, og leggja niðurstöðu þeirra samningaumleitana fyrir það Alþ., sem væntanlega á að koma hér saman eftir tvo mánuði. Og þá getur Alþ., að þeim upplýsingum fengnum, tekið sína ákvörðun. Ég tel rétt, og mér er óhætt að segja, að þetta er líka skoðun Alþfl., að að þessu máli verði farið vinsamlega gagnvart þeirri þjóð, sem þarna á í hlut, og að komið sé fram á virðulegan hátt, eins og fullvalda þjóð sæmir. Og ég ber fullt traust til þess, að utanrrh. muni fá þá lausn, sem við getum unað við efnislega og eins að forminu til.

Af þeim ástæðum, sem ég hef nú fært fram, höfum við þm. Alþfl. ákveðið að greiða ekki atkv æði með þessari till.

Ég tek undir með síðasta ræðumanni, hv. 1. þm. Eyf., að ég harma það, ef afgreiðsla málsins verður með nokkru ósamþykki. En ég tel tæplega fært, úr því sem komið er, að málinu sé frestað. Enda tel ég vel mögulegt, eftir þeim hug, sem ríkti, þegar utanrmn. bar fram nál. sitt, að vera einhuga um málið. Ég vildi þess vegna leggja ríka áherzlu á, að slíkt gæti orðið, að fengnum þeim yfirlýsingum, sem hér voru gefnar af hæstv. forsrh.