01.10.1946
Neðri deild: 9. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

Minning látinna manna

forseti (BG):

Áður en fundarstörf hefjast, vil ég minnast nokkrum orðum nýlátins fyrrv. þingmanns og gagnmerks manns, Guðmundar Hannessonar prófessors, sem andaðist hér í bænum í nótt, áttræður að aldri. Hann var 1. þm. Húnvetninga á þingunum 1914 og 1915 og átti þá sæti í neðri deild.

Guðmundur Hannesson fæddist 9. sept. 1866 að Guðlaugsstöðum í Blöndudal, sonur Hannesar bónda þar Guðmundssonar alþm. á Guðlaugsstöðum Arnljótssonar og konu hans Halldóru Jónsdóttur bónda á Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd Jónssonar. Hann útskrifaðist úr lærða skólanum í Rvík 1887 og lauk læknaprófi í Kaupmannahafnarháskóla 1894. Á sama ári var hann settur héraðslæknir í Skagafirði og gegndi því embætti í tæp tvö ár, en þá var hann settur og skömmu síðar skipaður héraðslæknir í Eyjafirði. Í því embætti var hann í 11 ár, til 1907, en þá var hann skipaður héraðslæknir í Reykjavík og jafnframt kennari við læknaskólann. Þegar Háskóli Íslands var stofnaður 1911, var hann skipaður þar prófessor og hafði það embætti á hendi til 1936. Jafnframt því embætti gegndi hann og um skeið embætti landlæknis. Af öðrum störfum, sem honum voru falin í almenningsþarfir, má nefna, að hann var yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1914–1915 og í skipulagsnefnd um 20 ára skeið, frá því er sú nefnd var sett á stofn samkvæmt lögum, er hann var frumkvöðull að, um skipulag kauptúna og sjávarþorpa.

Guðmundur Hannesson var hér frumherji og forustumaður á mörgum sviðum. Hann var frábær læknir og síðar læknakennari, einn hinna þriggja húnvetnsku Guðmunda, sem sköruðu fram úr í þeim efnum og tóku heilbrigðismál landsins allt öðrum tökum en verið hafði. Um þau mál ritaði Guðmundur bæði bækur og fjölmargar ritgerðir og bæklinga til fræðslu og vakningar. En hann einskorðaði sig ekki við fræðigrein sína. Hann lét fjölmörg önnur þjóðmál til sín taka og sparaði hvorki tíma né vinnu til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Eins og getið hefur verið, átti hann frumkvæði að lagasetningu um skipulag bæja, ritaði bók um þau mál, og um húsagerð ritaði hann margt og mikið, síðast sögu húsagerðar á Íslandi, sem út kom 1943. Mannfræðirannsóknir og mannamælingar hóf hann hér fyrstur manna og ritaði um niðurstöður sínar í því efni bók á þýzku 1925. Fyrir starfsemi hans á þessu svíði sæmdi Háskóli Íslands hann doktorsnafnbót 1941. Um stjórnmál hugsaði hann og skrifaði margt. Minnisstæðast verður þjóðinni í þeim greinum rit hans frá 1906, „Í afturelding“, sem markaði skýrt takmarkið, að landið yrði með öllu sjálfstætt ríki og að stefna bæri að fullum skilnaði við Dani.

Guðmundur Hannesson var maður óvenju fjölmenntaður, sílesandi og sístarfandi alla ævi. Þjóðin mun lengi minnast og njóta atorku og eljusemi þessa gáfaða og mikilhæfa manns og hinna margþættu brautryðjandastarfa hans.

Ég vil biðja hv. deildarmenn að votta minningu hans virðingu sína með því að rísa út sætum. — [Allir dm. risu úr sætum.]