19.09.1946
Sameinað þing: 6. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

Setning þings af nýju

forseti (JPálm):

Í nótt andaðist hér í bænum Jósef Björnsson, fyrrum skólastjóri á Hólum, nær 87 ára að aldri.

Jósef Jón Björnsson fæddist 26. nóv. 1859 á Torfustöðum fremri í Miðfirði, sonur Björns Björnssonar, bónda þar, og konu hans, Ingibjargar Hallsdóttur, bónda á Vatnshorni í Haukadal, Hallssonar. Hann útskrifaðist úr búnaðarháskólanum í Stend í Noregi 1879 og stundaði eftir það um hríð verklegt búnaðarnám í Danmörku, kom heim 1880 og stjórnaði á næstu árum jarðabótavinnu í Skagafirði. Þegar bændaskólinn á Hólum var settur á stofn 1882, varð Jósef skólastjóri hans og gegndi því starfi í 6 ár í það sinn. Á skólastjórnarárum sínum, veturinn 1885–1886, gekk hann í búnaðarháskólann í Kaupmannahöfn og tók þar próf í ýmsum búfræðigreinum eftir vetrarlangt nám. Á árunum 1888–189f var hann bóndi á Bjarnastöðum og Ásgeirsbrekku, en tók þá aftur við skólastjórn á Hólum og hafði hana á hendi í næstu 6 ár, þar til Sigurður Sigurðsson tók við skólanum, en eftir það var hann kennari við skólann allt til ársins 1934. Jafnframt kennarastarfinu rak hann bú á Vatnsleysu í Viðvíkursveit árin 1902–1922 og bjó þar einnig um hríð eftir að hann lét af kennslustör fum. Hann var þm. Skagfirðinga á árunum 1908–1916 og sat á sex þingum. Fjölmörg önnur trúnaðarstörf hafði hann á hendi í almenningsþarfir. Skal hér aðeins nefnt, að hann var skipaður formaður mþn. í launamálum 1914, og kosinn í velferðarn. 1915, átti sæti í yfirskattan. Skagafjarðarsýslu um 20 ára skeið og var á tímabili hreppstjóri, hreppsnefndaroddviti og formaður búnaðarfélags í sveit sinni.

Jósef Björnsson var frábær maður að gáfum og starfsþreki. Eftir hann liggur mikið og fjölþætt ævistarf og þá fyrst og fremst á sviði íslenzkra búnaðarmála og búnaðarfræða. Saga hans frá tvítugsaldri er líka samtvinnuð sögu íslenzks landbúnaðar á sama tíma. Hans mestu áhrif til þrifa og þróunar eru tengd við skólastjórn hans og kennslu í elzta búnaðarskóla landsins um meira en hálfrar aldar skeið. Fjöldi manna víðsvegar um land á honum mikið að þakka, en mest hinir mörgu lærisveinar hans og svo nánasta skyldulið.

Á Alþingi starfaði hann fyrst og fremst að búnaðarmálum og beitti sér fyrir samtökum bænda og búnaðarvina innan Alþ., enda fylgdi hann alla ævi sérhverju því máli, er til heilla horfði fyrir landbúnaðinn, þó að áhugamál hans væri aukin fræðsla í búnaðarvísindum. Jafnframt kennslu sinni samdi hann einnig nokkrar kennslubækur í búnaðarfræðum svo og fjölda greina í blöð og tímarit.

Jósef var hið mesta prúðmenni í framkomu og viðbúð, alúðlegur, glaðlyndur og fyndinn, glöggur á menn og málefni og hinn mesti fræðasjór. Munu fáir eða engir hafa staðið honum framar að þekkingu í búnaðarfræðum um langan tíma.

Ég bið háttvirta alþingismenn að heiðra minningu þessa merka manns með því að rísa úr sætum. — [Allir þm. risu úr sætum.]