25.07.1946
Sameinað þing: 5. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

9. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Ég hef leyft mér að bera fram till. til þál., sem fer fram á það, að hv. Alþ. álykti að veita samþykki til þess, að fundum þingsins verði frestað frá 24. júlí 1946, enda verði það kvatt saman eigi síðar en 28. sept., en nú er að vísu 24. júlí liðinn, og mun ég bera fram brtt. þess efnis, að það verði gert 25. júlí, ef tekst að ljúka þessum störfum fyrir kl. 12, ella 26. júlí.

Eins og kunnugt er, þá er verkefni þessa þings lokið. Það var kvatt saman til þess að fjalla um inntökubeiðni Íslendinga í bandalag hinna sameinuðu þjóða, og það hefur verið endanlega gengið frá því máli af hendi hæstv. Alþ. En nú hafa verið gefin út brbl., eftir að síðasta þingi lauk, og þau á, eins og kunnugt er, að leggja fyrir Alþingi, og falla þau úr gildi, ef þau fá ekki meðferð og samþykkt á Alþingi, áður en því lýkur. Af þessum ástæðum hef ég kosið það form að fresta aukaþinginu, í stað þess að ljúka því, þar eð meðferð brbl. mundi taka nokkurn tíma og tefja setu þingsins, en hins vegar rekur ekki nauður til að afgreiða þau fyrr en þingið kemur aftur saman í september.

Með þessum rökum vænti ég þess, að orðið geti samkomulag um að samþykkja þessa till.