20.09.1946
Sameinað þing: 7. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Samningsuppkast það, sem hér liggur fyrir á þskj. 18, skýrir sig að mestu sjálft. Þó þykir mér hlýða að fylgja því úr hlaði með fáeinum orðum.

Í júlímánuði 1941 var hinn svonefndi herverndarsamningur gerður milli ríkisstj. Íslands og forseta Bandaríkjanna. Í bréfi ríkisstj. Íslands til forseta Bandaríkjanna segir m.a.:

„Bandaríkin skuldbinda sig til að hverfa burt af Íslandi með allan herafla sinn á landi, í lofti og á sjó, undireins og núverandi ófriði er lokið.“

Hinn 1. október 1945 bar stj. Bandaríkjanna fram óskir um, að stj. Íslands tæki upp viðræður við stj. Bandaríkjanna um leigu til langs tíma á þrem tilgreindum herstöðvum hér á landi. Tilmælum þessum svaraði ríkisstj. hinn 6. nóv. s.l. á þá leið, að hún sæi sér ekki fært að verða við þeim, og eftir að sendiherra Íslands í Washington samkv. ósk stj. Íslands hafði rætt málið við stj. Bandaríkjanna, tilkynnti hann stjórn Íslands hinn 8. des. s.l., að stjórn Bandaríkjanna hefði fallizt á að stöðva málið, a.m.k. í bili. Í júlímánuði s.l. var dvöl Bandaríkjahersins á Íslandi gerð að umræðuefni á Alþ. Í sambandi við þær umr. gaf ég hinn 25. júlí svo hljóðandi yfirlýsingu:

Ríkisstj. mun, svo fljótt sem auðið er, hefja viðræður við stjórn Bandaríkjanna um fullnægingu og niðurfellingu herverndarsamningsins frá 1941 og öll atriði, sem máli skipta í því sambandi, og gefa Alþ. skýrslu um málið strax og það kemur saman.“

Samkvæmt þessu fyrirheiti hóf ég í júlílok umræður við umboðsmenn stjórnir Bandaríkjanna um þetta mál í heild. Niðurstaðan liggur nú fyrir á því þskj., sem hér er til umræðu.

Aðalatriðin eru þessi:

1. Herverndarsamningurinn frá 1941 er úr gildi felldur.

2. Bandaríkin skuldbinda sig til að hafa flutt allan her sinn burtu af Íslandi innan 6 mánaða frá því hinn nýi samningur gengur í gildi.

3. Bandaríkin afhenda Íslendingum tafarlaust Keflavíkurflugvöllinn til fullrar eignar og umráða.

Með þessu er fullnægt öllum þeim óskum, sem af Íslands hálfu hafa verið fram bornar í þessu máli. Má og væntanlega treysta því, að hvað þetta áhrærir, muni hinn nýi samningur engri gagnrýni sæta, heldur einvörðungu fögnuði allra Íslendinga, a.m.k. allra þeirra, sem ekki vildu aðhyllast óskir þær, sem fram voru bornar af hálfu Bandaríkjanna hinn 1. okt. s.l. Bandaríkin hafa með þessu samningstilboði algerlega fallið frá öllum kröfum um herstöðvar og landsréttindi. Hið eina, sem eftir stendur, er, að Bandaríkin skuli, um takmarkaðan og stuttan tíma, fá að hafa áfram þau og þau ein afnot af Keflavíkurflugvellinum, sem þau telja sér nauðsynleg til þess að geta innt af hendi þær skyldur, sem þau hafa tekið að sér í sambandi við herstjórn Þýzkalands. Eru þau réttindi nánar skilgreind í 5. gr., og skal ég leyfa mér að lesa hana upp):

„Flugförum þeim, sem rekin eru af Bandaríkjastjórn eða á hennar vegum í sambandi við framkvæmd þeirrar skyldu, er Bandaríkin hafa tekizt á hendur, að hafa á hendi herstjórn og eftirlit í Þýzkalandi, skulu áfram heimil afnot af Keflavíkurflugvellinum. Í þessu skyni skal stjórn Bandaríkjanna heimilt að halda uppi á eigin kostnað, beinlínis eða á sína ábyrgð, þeirri starfsemi, þeim tækjum og því starfsliði, sem nauðsynlegt kann að vera til slíkra afnota. Taka skal sérstakt tillit til sérstöðu slíkra flugfara og áhafna þeirra, hvað snertir tolla, landvistarleyfi og önnur formsatriði. Engin lendingargjöld skal greiða af slíkum flugförum.“

Í samningnum felast engin önnur réttindi, sem máli skipta, Bandaríkjunum til handa. Þó þykir rétt að leiða athygli að, að samkv. 9. og 10. gr. ber þeim eigi að greiða innflutningsgjöld af efnisvörum til viðhalds og viðauka á flugvellinum eða af nauðsynjavörum þeirra manna, er þar dveljast til fullnægingar þeirri nauðsyn, er 5. gr. ræðir um, né heldur tekjuskatt af þeim hluta tekna þessara manna, sem greiddar eru af öðrum en íslenzkum aðilum.

Þessum fríðindum til skýringar skal á það bent, að samkv. 8. gr. ber hvorugum samningsaðilanum skylda til að taka á sig útgjöld út af viðhaldi eða rekstri flugvallarins umfram það, sem hann sjálfur telur nauðsynlegt vegna sinna eigin hagsmuna. Af þessu leiðir, að Íslendingar munu engin útgjöld hafa af samningnum nema þeir óski þess sjálfir, og þá væntanlega vegna þess, að þeir telji, að íslenzkum sérhagsmunum sé nauðsynlegt að halda samningnum í gildi, en þess reynist ekki kostur án fjárframlaga af Íslendinga hálfu. Hins vegar falla Íslendingum að sjálfsögðu sem eigendum flugvallarins allar tekjur af honum. Í þessu ljósi eru hin fyrrgreindu fríðindi eðlileg.

Samkv. 6. gr. er svo til ætlazt, að Íslendingum verði kennd, eftir því sem kringumstæður leyfa, þau störf, er snerta rekstur flugvallarins, í því skyni, að Íslendingar geti í sem allra ríkustum mæli tekið þau að sér. Að sjálfsögðu fækkar þá amerískum mönnum á flugvellinum.

Rétt þykir að geta þess, þótt það liggi í hlutarins eðli, að íslenzk stjórnarvöld ráða vali þeirra Íslendinga, er taka við störfum á flugvellinum. Þá þykir mér í þessu sambandi rétt að leiða athygli að því, að þeir amerískir þegnar, sem ætlað er, að starfi fyrst um sinn að rekstri flugvallarins, verða að sjálfsögðu að afla sér dvalar- og atvinnuleyfis frá íslenzkum stjórnarvöldum, og verða þeir undir íslenzkri lögsögu og löggæzlu meðan þeir dveljast hér. Hversu margir þeir verða, verður ekki með fullri vissu staðhæft. Fram að þessu munu um 1000 af þeim 1300 amerísku hermönnum, sem hér dveljast, hafa gegnt starfi á flugvellinum.

Hermennirnir fara nú allir af landi brott, en við störfum taka æfðir starfsmenn í flugvallaþjónustu. Jafnframt verða gerðar sérstakar ráðstafanir til að spara mannafla. Telur stjórn Bandaríkjanna, að komizt verði af með 600 manns í þessu skyni að óbreyttum kringumstæðum. Hefur stjórn Bandaríkjanna skýrt mér frá, að hún muni leitast við að komast af með sem allra fæsta menn til þessara starfa.

Í 7. gr. er svo fyrir mælt, að stjórnir beggja ríkjanna komi sér saman um ýmsar reglur varðandi rekstur og öryggi á flugvellinum. Er þar skýrt kveðið á um, að Íslendingar hafi úrslitavald um allan rekstur flugvallarins.

Í 11. gr. segir, að við niðurfellingu samningsins megi stjórn Bandaríkjanna fara burt með hreyfanleg verðmæti, sem bætt hefur verið á flugvöllinn frá samningsdegi, ef stjórn Íslands vilji ekki kaupa þau. Í þessu felast fríðindi Íslendingum til handa, sem vel mega nema tugum millj. kr., þ.e.a.s., að Íslendingar eignast þau verðmæti, sem ekki eru hreyfanleg, endurgjaldslaust. Læt ég þá hlið málsins þó liggja á milli hluta, þar eð tilgangur þessa samnings er ekki sá að afla Íslendingum nýrra verðmæta, heldur annar og þýðingarmeiri.

12. gr. samningsins fjallar um réttinn til að segja samningnum upp. Er svo fyrir mælt, að samningurinn gildi meðan skyldan til herstjórnar og eftirlits í Þýzkalandi hvílir á Bandaríkjunum, þó þannig, að eftir 5 ár frá samningsdegi er hvorum aðila um sig heimilt að krefjast endurskoðunar. Skal endurskoðun lokið innan 6 mánaða frá því að hennar var óskað. Náist ekki samkomulag, hefur hvor aðili um sig rétt til einhliða uppsagnar með árs fyrirvara. Samkv. þessu fellur samningur inn úr gildi:

1. Strax og skyldu Bandaríkjanna til herstjórnar og eftirlits í Þýzkalandi lýkur.

2. Í síðasta lagi eftir 61/2 ár frá samningsdegi, ef annar hvor aðili óskar, og það alveg jafnt, þótt ekki verði lokið herstjórnarskyldu Bandaríkjanna í Þýzkalandi.

Mér þykir sennilegt, að margir hefðu kosið, að hægt væri að fella samninginn úr gildi með styttri fyrirvara. Um þetta hefur eigi náðst samkomulag. Vil ég í því sambandi skýra frá, að enda þótt stjórn Bandaríkjanna hafi lýst yfir, að Bandaríkin muni í einu og öllu virða ákvæði herverndarsamningsins frá 1941, þá telji Bandaríkin sér samt ekki skylt að hverfa að svo stöddu burt með her sinn frá Íslandi, þar eð ófriðnum sé enn eigi lokið í þeim skilningi, er samningurinn fjallar um. Af Íslands hálfu hefur á engan hátt verið fallizt á þann skilning. Er því hér um að ræða þýðingarmikinn ágreining, sem mjög er æskilegt, að geti jafnazt í fullu bróðerni. Hefur það nú tekizt, ef samningsuppkast þetta nær samþykki Alþingis.

Jafnframt vil ég skýra frá því, að framan af þeim samningsumleitunum, er nú hafa staðið yfir, hélt stjórn Bandaríkjanna fast við, að hinn nýi samningur gilti meðan Bandaríkin hefðu skyldu til herstjórnar í Þýzkalandi. Á það var ég með öllu ófáanlegur til að fallast, en stakk í þess stað upp á árs uppsagnarfresti. Stóð lengi í þófi um þetta atriði. Þar kom þó loks, að Bandaríkin féllust á 111/2 ár. Ég vildi ekki heldur ganga að því. Tókust loks sættir um 61/2 ár. Vænti ég, að því verði unað af Íslands hálfu, þegar á allt er litið.

Þá þykir mér rétt að geta þess, að rísi ágreiningur út af þessum samningi, mun hann verða útkljáður annað tveggja af Haag-dómstólnum, samkv. þar að lútandi samningi milli Íslands og Bandaríkjanna frá 1930, eða samkv. reglum sameinuðu þjóðanna um ágreining, er rísa kynni milli þeirra.

Ég tel, að með þessu samningsuppkasti, ef að samningi verður, hafi farsællega tekizt að leysa mikið og vandmeðfarið mál, sem vel gat valdið örlagaríkri deilu milli okkar og okkar voldugu vinaþjóðar, Bandaríkjanna.

Fyrir nokkru síðan báru Bandaríkin fram óskir um rétt til herstöðva á Íslandi. Íslendingar eru vel minnugir margs þess, er Bandaríkin hafa vel gert í þeirra garð, og eigi sízt þess, að fyrstir allra viðurkenndu þeir rétt Íslendinga til stofnunar lýðveldis. Af því og hinni einkar vinsamlegu sambúð á ófriðarárunum leiddi, að Íslendingar vildu út af fyrir sig geta orðið við óskum Bandaríkjanna. Hins vegar töldu Íslendingar, að réttur til herstöðva á Íslandi erlendu ríki til handa væri ekki samræmanlegur sjálfstæði Íslands og fullveldi. Var því eigi annars úrkosta en að synja þessari beiðni Bandaríkjanna. Stóðu þá sakir þannig, að Íslendingar höfðu neitað beiðni Bandaríkjanna, og enn var óséð, hversu til tækist um brottflutning hers Bandaríkjanna frá Íslandi, svo að vandræðalaust yrði. Nú er lausn fáanleg á málinu. Bandaríkin hafa nú látið niður falla óskirnar um herstöðvar. Hugsanlegur ágreiningur um skilning samningsins frá 1941 er úr sögunni, og allur her Bandaríkjanna hverfur burt af Íslandi.

Íslendingar hafa þannig endurheimt land sitt að fullu.

Að nefna þennan samning í sömu andránni og hið svonefnda herstöðvamál er goðgá. Í fyrra báðu Bandaríkin okkur um Hvalfjörð, Skerjafjörð og Keflavík. Þau fóru fram á langan leigumála, kannske 100 ár, vegna þess að þau ætluðu að leggja í mikinn kostnað. Þarna áttu að vera voldugar herstöðvar. Við áttum þarna engu að ráða. Við áttum ekki svo mikið sem að fá vitneskju um, hvað þar gerðist. Þannig báðu Bandaríkin þá um land af okkar landi til þess að gera það að landi af sínu landi. Og margir óttuðust, að síðan ætti að stjórna okkar gamla landi frá þeirra nýja landi. Gegn þessu reis íslenzka þjóðin. Nú aftur á móti afhenda Bandaríkin okkur Hvalfjörð, Skerjafjörð, Keflavík, allt Ísland. Jafnframt tjá þau okkur vandræði sin. Þau segjast hafa skuldbundið sig gagnvart öðrum ríkjum, já, eiginlega gagnvart sameinuðu þjóðunum, að Íslandi meðtöldu, til þess að hafa fyrst um sinn á hendi herstjórn í Þýzkalandi. Þau leggja áherzlu á, að til þess að geta innt af hendi þá skyldu, séu þeim nauðsynleg viss flugréttindi á Íslandi, einnig í því skyni að auka öryggi og spara mannslíf. Bandaríkin beiðast því takmarkaðra og tímabundinna afnota af flugvelli þeim, er þau hafa byggt á eigin kostnað fyrir meira en 130 millj. kr., og afhenda nú Íslendingum til fullrar eignar og umráða. Þau benda á, að svipuð og meiri réttindi hafi þau í öðrum löndum, sem liggja á leið þeirra til Þýzkalands. Þannig sé það og um aðra þá, er hafi herstjórnarskyldu í Þýzkalandi. Þeir hafi allir flugréttindi í löndunum, sem eru á leið þeirra til Þýzkalands.

Bandaríkin taka skýrt fram, að þau óski engra réttinda annarra en þeirra, sem með þurfi il að fullnægja herstjórnarskyldunni, sem á þeim hvílir. Þau kveða alveg greinilega á um, að mannfjöldinn, sem dveljast fái á flugvellinum, miðist við það minnsta, sem sé nauðsynlegt í þessu skyni.

Þau vilja í einu og öllu búa svo um hnútana, að allt sé fyrir opnum tjöldum, svo að ekkert orki tvímælis. Það er skírt tekið fram, að Íslendingar eigi flugvöllinn. Það er jafntvímælalaust fært í letur, að Íslendingar hafi úrslitavald yfir rekstri hans. Enginn hermaður má starfa á flugvellinum. Enginn Ameríkani má starfa þar, nema hann fái landvistar- og dvalarleyfi frá íslenzkum stjórnarvöldum. Í því skyni að fækka Ameríkönum á strax að byrja að kenna Íslendingum störfin, svo að þeir geti sem fyrst og í sem ríkustum mæli tekið við þeim. Það eru íslenzk stjórnarvöld, sem þessa menn velja. Að óbreyttri stjórn á Íslandi réði Finnur Jónsson landvistar- og dvalarleyfum, en Áki Jakobsson veldi Íslendingana á völlinn, ef honum sýndist svo.

Það er hægt að segja: Ég vil alls engan samning við Bandaríkin. Ég vil fjandskapast við Bandaríkin. En það er ómögulegt að segja: Ég vil halda vinfengi við Bandaríkin og þess vegna leysa þörf þeirra, ef ég get það mér að meinfangalausu, en neita þó að gera þennan samning. Að mínu viti er Íslendingum það lífsnauðsyn að halda vinfengi við sem flestar þjóðir, og þá eigi sízt þær, sem næstar okkur eru. Ég tel, að sjálfstæði Íslands velti á því, að Ísland beri gæfu til að svara tilmælum annarra þjóða játandi eða neitandi eftir því, hvað við á. Út frá þessu grundvallarsjónarmiði var ég ófáanlegur til að verða við óskum þeim, sem Bandaríkin báru fram 1. október í fyrra. Út frá þessu sama sjónarmiði er ég ófáanlegur til að neita að verða við þeim írskum, sem nú eru fram bornar.

Vil ég svo leggja til við hæstv. forseta, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og utanrmn.