19.09.1946
Sameinað þing: 6. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

Setning þings af nýju

forseti (JPálm):

Áður en þingstörf hefjast í dag, hinn 8. október, vil ég minnast þess, að þennan dag fyrir 100 árum fæddist einn hinna mestu þjóðmálaskörunga, sem þetta land hefur átt, Björn Jónsson, ritstjóri og ráðherra.

Það er ekki ætlun mín að rekja hér lífsferil hans. Hann er öllum þingheimi kunnur. Um áratugi naut íslenzk þjóð frábærrar ritsnilldar hans og einbeitni í frelsisbaráttu hennar, og hann átti mikinn þátt í lausn þeirri, sem fengin er í þeim málum. Hann var einn þeirra góðu Íslendinga, sem ruddu brautina að markinu, þó að alllangt væri á leiðarenda, meðan hans naut við. Engum, sem sá hann, duldist, að þar fór garpur mikill, höfðingi og fyrirliði. Hann átti, sem margir slíkir, fjölda vína og fylgismanna, en jafnframt harðskeytta andstæðinga. Yfir þær erjur fyrnist á löngum tíma, en afrekin verða minnisstæð, og „merkið stendur, þótt maðurinn falli“.

Ég vil biðja hv. þingmenn að votta minningu þessa stórbrotna manns virðingu sína með því að rísa úr sætum. – [Þingheimur reis úr sætum.]